Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir víðtækan vilja vera innan Alþingis við að ná samkomulagi um þær breytingar á stjórnarskrá sem stjórnarskrárnefnd kynnti á föstudag fyrir viku. Þau ákvæði sem breyta á snúa að þjóðaratkvæðagreiðslum, náttúruauðilindum og umhverfis- og náttúrvernd. Forsætisráðherrann segir að niðurstaðan sé málamiðlun og að hann muni taka afstöðu til hennar þegar stjórnarskrárnefnd skilar formlega af sér tillögum sínum. Það sé mjög æskilegt að ljúka meðferð þessarra atriða á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þar segir Sigmundur Davið að hef hann eigi að nefna eitthvað sem hann hefði viljað hafa öðruvísi þá sé það að hann hefði viljað hafa meiri áherslu á að almenningur gæti haft frumkvæði að því að setja má á dagskrá frekar en að hafa það sem kalla mætti neikvæðu nálgunina, bara möguleika á því að fella mál. „Það er eitthvað sem má velta fyrir sér í framhaldinu. Við munum skoða þetta, formenn flokkanna, þegar þessu hefur verið formlega skilað og taka afstöðu til þess hvort menn nái saman um að leggja þetta fram.
Stjórnarskrárnefnd birti á föstudag drög að þremur frumvörpum til stjórnarskipunarlaga á vefnum stjornarskra.is. Voru drögin sett fram í þremur frumvörpum, að því er fram kemur á vef forsætisráðuneytisins. Frumvörpin hafa verið birt þar í heild sinni.
Fyrsta er um ákvæði um auðlindir náttúru Íslands og að þær séu þjóðareign. Annað frumvarpið um umhverfi og náttúru þar sem mælt er fyrir um ábyrgð á vernd náttúru og að varúðar- og langtímasjónarmið verði höfð að leiðarljósi. “
Að lokum er lagt til að fimmtán prósent kosningarbærra manna geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi.