Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir það ömurlegt að hafa verið þjófkenndur vegna sölu á hlut Landsbankans í Borgun. Hann telur Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, hafa í nokkru tilliti farið fram úr sér í samtölum við fjölmiðla um málið og látið falla orð sem mögulegt sé að túlka á þann veg að Haukur hafi svikið fé út úr bankanum. Haukur segir ennfremur að vöxtur Borgunar sé eftir áætlunum og hafi ekki átt að koma neinum á óvart.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í fyrsta stóra viðtalinu sem Haukur veitir eftir að Borgunarmálið komst aftur á dagskrá í byrjun árs, og birt er í ViðskiptaMogganum í morgun.
Þegar Eignarhaldsfélagið Borgun, í eigu stjórnenda Borgunar og meðfjárfesta þeirra, keypti 31,2 prósent hlut ríkisins í Borgun var fyrirtækið metið á sjö milljarða króna. Í nýlegu mati sem KPMG framkvæmdi er virði þess metið á 19-26 milljarða króna.
Ekki honum að kenna heldur honum að þakka
Í viðtalinu segir Haukur að það sé „eðlilegasti hlutur í heimi“ að forstjóri fjárfesti í því fyrirtæki sem hann starfi hjá. Það sama eigi við um aðra stjórnendur og starfsmenn og að það sé gert í samvinnu við þá aðila sem eru að koma að fyrirtækinu. „Mér var ljóst á þessum tíma að mér bar að greina kaupendum og seljendum satt og rétt frá öllu því sem varðaði félagið og það gerði ég að sjálfsögðu eftir minni bestu vitund. Þar var ekkert dregið undan. Það er ömurlegt að vera í raun þjófkenndur vegna eftir á orðinna atburða. Ég tel að Íslandsmet hafi verið slegið í eftiráspeki í þessu máli. Því er jafnvel haldið fram að við hefðum átt að vita hvernig verðþróunin á félaginu yrði. Árið 2008 var fyrirtækið metið á 500 til 600 milljónir króna. Í dag er fyrirtækið metið á tuttugu og eitthvað milljarða. Það er ekki eitthvað sem er mér að kenna, eins og umræðan virðist snúast um. Það er hins vegar mér og starfsfólkinu ásamt stjórninni að þakka. Það væri nær að líta þannig á.“
Haukur segir að ráð megi gera fyrir því að hlutirnir hefðu litu öðruvísi út ef hann hefði ekki verið meðal kaupenda og hann segist hafa skilning á því. „En hvað varðar spurningar um það hvort ég hafi einhvern tíma sagt ósatt þá liggur það fyrir í öllum fyrirliggjandi gögnum að við höfum sagt satt og rétt frá hverjum einasta hlut. Það er sannað því það stendur skjalfest í gögnum hjá þriðja aðila, KPMG. Okkar framganga var 100% eftir bókinni að öllu leyti.“
Aukið virði átti ekki að koma neinum á óvart
Í viðtalinu við ViðskiptaMoggann er Haukur spurður af því hvað orsaki þá miklu virðisaukningu sem orðið hefur á Borgun á síðustu tæpu fimmtán mánuðum frá því að Landsbankinn, sem er í 98 prósent í eigu ríkisins, seldi hlut sinn. Hann segir fyrst og fremst tvær ástæður að baki því. „Í fyrsta lagi það að ávöxtunarkrafa á íslensk hlutabréf hríðlækkar á tímabilinu og í öðru lagi það að áætlanir sem við lögðum upp með hafa gengið eftir. Þá getur verið að trú á því að við getum risið undir þeim markmiðum sem við höfum sett fyrirtækinu hafi áhrif. Reksturinn hefur gengið vel og áhættan í umhverfinu er almennt minni. Samspil þessara þátta veldur því að verðmæti fyrirtækisins hefur hækkað. Ég spyr hins vegar, er þessi verðmætaaukning eitthvað óeðlileg þegar litið er til þess sem gerst hefur annars staðar? Visa Europe hækkaði úr 3 milljörðum dollara í 25 milljarða á tveimur árum. Annað dæmi má nefna héðan frá Íslandi. Hefur Nýherji ekki fjórfaldast í verði á skömmum tíma? Hefur það fyrirtæki hækkað óeðlilega mikið? Svona er þetta einfaldlega með hlutabréf. Einnig er rétt minna á að verðmat er ekki sama og verð, þannig að óvíst er að einhver sé tilbúinn að kaupa hlut í fyrirtækinu á því verði sem verðmatið gefur vísbendingar um.“
Aðspurður um hvort hið aukna verðmæti sé þá í takt við þær áætlanir sem kynntar voru í aðdraganda þess að Landsbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu segir Haukur að ekkert sem gerst hafi hjá Borgun sé á skjön við það sem kaupendur og seljendur fengu að sjá í kynningum fyrirtækisins. „Vöxtur fyrirtækisins hefur gengið eftir áætlunum og hefur ekki komið mér á óvart og ætti í raun ekki að koma neinum á óvart.“