Benedikt Árnason hefur verið skipaður skrifstofustjóri á nýrri skrifstofu þjóðhagsmála í forsætisráðuneytinu. Tilurð skrifstofunar er hluti af breytingum á skipuriti forsætisráðuneytisins sem tilkynnt var um þann 20. október 2015. Hæfnisnefnd sem skipuð var til meta hæfni umsækjenda um stöðuna og taldi Benedikt hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu. Benedikt hefur starfað sem sérlegur efnhagsráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra frá 27. ágúst 2013. Hann var einnig efnahagsráðgjafi ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar.
Benedikt starfaði sem hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun frá 1988-1993, fjármálastjóri Vita- og hafnamálastofnunar 1994-1995, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu 1996-2004, aðstoðarframkvæmdastjóri í Norræna fjárfestingarbankanum 2005-2007, aðstoðarforstjóri og síðar forstjóri Askar Capital 2008-2010, ráðgjafi við fjárhagslega endurskipulagningu Orkuveitu Reykjavíkur 2010 og aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins frá 2011.
Hæfnisnefndina sem ákvað að ráða Benedikt skipuðu Helga Hauksdóttir, mannauðsstjóri í utanríkisráðuneytinu, Arnar Jónsson, stjórnsýsluráðgjafi hjá Capacent, og Gunnar Haraldsson, hagfræðingur.
Í niðurstöðu hæfnisnefndar segir m.a.: „[Benedikt] hefur mjög mikla þekkingu og reynslu á sviði þjóðhagsmála. Hann hefur starfað því sem næst samfellt á þessu sviði frá því hann lauk námi árið 1993 við fjölbreytt störf á fleiri en einum vinnustað. Hann hefur bæði starfað sem sérfræðingur og stjórnandi. hann hefur samanlagt starfað í rúm 16 ár innan stjórnsýslunnar. Þá hefur hann mjög mikla reynslu af stefnumótun, samráði og undirbúningi verkefna á sviði þjóðhagsmála. Í stjórnunarstörfum á starfsferlinu hefur reynt mikið á forystu-, samskipta- og skipulagshæfni.“