Ákveðið hefur verið að skipa nýja hæfnisnefnd til þess að meta hæfni umsækjenda um starf skrifstofustjóra viðskipta-, nýsköpunar- og ferðamála í atvinnuvegaráðuneytinu. 38 sóttu um starfið og einn kvartaði yfir ferlinu.
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að Baldur Guðlaugsson, lögfræðingur og fyrrverandi ráðuneytisstjóri, hefði verið skipaður formaður hæfnisnefndarinnar. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Helga Hlín Hákonardóttir lögfræðingur voru einnig í nefndinni.
Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu kemur fram að tveir af þremur nefndarmönnum í hæfisnefndinni hafi haft bein eða óbein persónuleg tengsl við umsækjendur. Heimildir Kjarnans herma að þar hafi verið um að ræða Baldur og Helgu Hlín.
Nefndarmenn höfðu ákveðið áður en vitað var hverjir sæktu um starfið að þeir myndu segja sig frá þátttöku í mati á umsókn viðkomandi umsækjenda. Það varð því úr að Baldur og Helga tóku ekki þátt í viðtölum við þá umsækjendur sem þau höfðu einhver tengsl við. Öllum umsækjendum var sagt frá þessu og starfsmaður nefndarinnar tók sæti í henni þegar svona stóð á. Þá er tekið fram í tilkynningu ráðuneytisins að í engu tilfellanna hafi verið um að ræða skýlausar vanhæfnisástæður í skilningi stjórnsýslulaga, „heldur mótaðist afstaða nefndarmanna af ítrustu varfærnissjónarmiðum.“
Hins vegar kvartaði einn umsækjandi undan þessu ferli eftir að viðtölum var lokið, vegna þess að um væri að ræða heildstætt ferli þyrftu allir nefndarmenn að fjalla um alla umsækjendur. Ákveðið var því að endurskipa nefndina svo ekki skapaðist óvissa eða ágreiningur um ráðningarferlið.
Baldur Guðlaugsson var árum saman ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Hann var færður til í starfi eftir að ný ríkisstjórn tók við árið 2009 og yfir í menntamálaráðuneytið. Hann lét af störfum þar í október 2009 í kjölfar þess að sérstakur saksóknari hóf rannsókn á mögulegum innherjaviðskiptum Baldurs í aðdraganda bankahrunsins, en hann seldi bréf sín í Landsbankanum í september 2008 fyrir um 192 milljónir króna. Þann 7. apríl 2011 var Baldur dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti í febrúar 2012. Baldur lauk afplánun sinni á árinu 2013. Hann hefur starfað sem ráðgjafi á lögmannsstofunni Lex frá haustinu 2012.