Umboðsmaður Alþingis er með kvörtun fyrirtækisins Valorku vegna styrkveitingar Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í fyrrahaust til meðhöndlunar. Valorka sendi upphaflega kvörtun til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins vegna styrkveitingarinnar þann 24. september 2015 og í framhaldinu sendi fyrirtækið kvörtun til umboðsmanns Alþingis.
Fréttablaðið greindi frá því í oktober 2015 að miðstöðin hefði fengið fjórðung þeirra styrkja sem Orkusjóður hafði nýverið úthlutað til alls ellefu verkefna í fyrra haust. Í umfjöllun blaðsins kom fram að formaður nefndarinnar sem velur hverjir fá styrki, Árni Sigfússon, er bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Þorsteins Inga Sigfússonar. Árni vék ekki sæti þegar fjallað var um styrkveitinguna. Árni kallaði umfjöllun Fréttablaðsins „ljótan leik“ í samtali við Stundina. Hann hafnaði því að eitthvað væri athugavert við úthlutunina, enda væri hún til ríkisstofnunar, ekki persónulega til bróður hans.
Valdimar Össurarson, framkvæmdastjóri Valorku, sem sótti einnig um styrk til Orkusjóðs en fékk ekki, taldi styrkveitinguna ólögmæta eins og að henni var staðið. Ástæðan væri sú að Árni og Þorsteinn Ingi væru bræður og þar með væri Árni vanhæfur til að veita styrk til Nýsköpunarmiðstöðvar. Slík veiting stangist á við 2. kafla stjórnsýslulaga og hljóti því að dæmast ómerk, að mati Valdimars.
Í 2. kafla stjórnsýslulaga segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann „er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar“ eða ef hann „tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti“. Auk þess teljast nefndarmenn vanhæfir ef „að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu“.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið svaraði erindi Valorku með bréfi sem sent var til fyrirtækisins 14. október 2015. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sendi Valorka í framhaldinu kvörtun til umboðsmanns Alþingis sem sendi í kjölfarið bréf til ráðuneytisins með nokkrum spurningum um málið. Bréf umboðsmanns var sent 3. Nóvember 2015 og því svarað þann 10. desember síðastliðinn. Að sögn ráðuneytisins er málið enn í meðhöndlun hjá embætti umboðsmanns Alþingis.
Breytingar gerðar á lögum um Orkusjóð í árslok 2014
Orkusjóður er í eigu ríkisins og er hlutverk hans að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Yfirumsjón og ábyrgð með sjóðnum er hjá iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Í desember 2014 samþykkti Alþingi að gera breytingar á lögum um Orkusjóð. Í þeim breytingum fólst meðal annars að Orkuráð var lagt niður en í stað þess á iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipta þriggja manna ráðgjafanefnd til fjögurra ára sem hefur það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.
Lagabreytingin tók gildi 1. janúar 2015 og í byrjun þess árs skipaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þrjá einstaklinga í ráðgjafanefndina. Þeir eru Árni Sigfússon, Franz Viðar Árnason og Halla Hrund Logadóttir.
Árni var auk þess skipaður formaður nefndarinnar.
Árni er velþekktur úr íslensku stjórnmálalífi. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þrettán ár á níunda og tíunda áratugnum og var borgastjóri höfuðborgarinnar í nokkra mánuði árið 1994. Árni varð síðar bæjarstjóri í Reykjanesbæ í tólf ár fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, frá árinu 2002 og fram að síðustu kosningum, vorið 2014, þegar flokkur hans tapaði miklu fylgi og missti völdin í sveitafélaginu. Árni situr enn sem óbreyttur aðalfulltrúi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og er oddviti Sjálfstæðisflokksins þar. Starf bæjarfulltrúa er hlutastarf.