Katrín Jakobsdóttir hefur verið orðuð við forsetaembættið annað veifið undanfarið ár. Hún hefur ítrekað mælst sem langvinsælasti stjórnmálamaðurinn á Alþingi, með mest traust og mest persónufylgi. Flokkurinn hennar, Vinstri græn, virðist þó ekki ná að nýta sér vinsældir Katrínar til að afla sér fylgis og hefur haldist með í kring um tíu prósenta fylgi í skoðanakönnunum frá síðustu kosningum.
Katrín hefur ekki viljað svara hvort hún ætli að bjóða sig fram til forseta Íslands. Stundin birti forsíðuviðtal við hana í gær þar sem fram kom að hún væri að hugsa málið alvarlega. Þá var líka birt skoðanakönnun blaðsins sem leiddi í ljós að langflestir virðist treysta henni til að sinna embættinu.
Formaðurinn lét samflokksmenn sína vita á miðvikudag af skoðanakönnun Stundarinnar. Kjarninn sló á þráðinn til þingmanna VG og varaformannsins og spurði þau álits um mögulegt forsetaframboð formannsins.
Spurt var: Hvaða skoðun hefur þú á mögulegu forsetaframboði Katrínar Jakobsdóttur?
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir: „Þetta er auðvitað alfarið hennar ákvörðun. En það verður vissulega mikil eftirsjá af henni ef hún ákveður að fara út pólitík, verandi sá stjórnmálamaður sem hún er og hvað hún getur gert. En það kemur alltaf maður í manns stað og Katrín á að gera nákvæmlega það sem hana langar til að gera.”
Björn Valur Gíslason (varaformaður og utan þings): „Ég held að fólk af hennar kaliberi gæti endurheimt forsetaembættið eftir það sem undan er gengið. Katrín getur gert hvað sem hún vill. Hvað sem hún gerir og hvað sem hún tekur sér fyrir hendur mun fara henni vel. Hún nýtur míns stuðnings í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur. En auðvitað verður mikil eftirsjá af henni af Alþingi ef hún tekur þessa ákvörðun.”
Lilja Rafney Magnúsdóttir: „Ef hún ákveður að gera þetta mun ég sakna hennar gífurlega, en ég mundi virða val hennar. Hún á fyrst og fremst að svara þessu sjálf frá innstu hjartarótum og taka ákvörðun út frá því - ekki væntanlegum hagsmunum flokksins. Hún á að vera frjáls en ekki skuldbundin flokknum.”
Steingrímur J. Sigfússon: „Ég tjái mig ekkert um það fyrr en ég hef heyrt í Katrínu eða niðurstaða hennar liggur fyrir. Ég ætla ekkert að trufla hana í því sem hún er að hugleiða þessa dagana.”
Steinunn Þóra Árnadóttir: „Ég styð hana í því sem hún gerir. Auðvitað eftirsjá af henni af þingi, hún er svo öflugur stjórnmálamaður. En hún yrði líka rosalega flottur forseti.”
Svandís Svavarsdóttir (þingflokksformaður): „Hún á að ákveða þetta alveg sjálf og mér finnst ekki tímabært að kommenta á þetta.”
Ögmundur Jónasson: „Ekkert komment.”