Atvinnuleysi í ríkjum Evrópusambandsins mældist 8,9 prósent í janúar síðastliðnum, en það hefur ekki mælst lægra frá því í maí árið 2009. Meðal evruríkjanna nítján var atvinnuleysið 10,3 prósent í janúar, en það er lægra en mælst hefur síðan í ágúst 2011. Þetta kemur fram í tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Tæplega 22 milljónir manna eru án vinnu í 28 ríkjum Evrópusambandsins, samkvæmt mati Eurostat. Þar af eru 16,6 milljónir atvinnulausra innan evruríkjanna. Minnst mælist atvinnuleysið í Þýskalandi, 4,3%, Tékklandi, 4,5%, Möltu og Bretlandi, þar sem það mælist 5,1%. Mest er atvinnuleysið í Grikklandi og á Spáni, 24,6% og 20,5%.
Hér að neðan má sjá atvinnuleysisþróunina í Evrópusambandinu, innan evrusvæðisins og á Íslandi undanfarin ár.
Ungt fólk áfram í mestum vanda
Atvinnuleysi ungs fólks hefur lengi verið mikið í Evrópu. Samkvæmt nýjustu tölum frá Eurostat eru 4,4 milljónir ungs fólks án vinnu í ríkjum Evrópusambandsins, þar af eru rúmlega þrjár milljónir innan ríkja evrusvæðisins. Hlutfall ungs fólks undir 25 ára án vinnu er 19,7 prósent innan ESB og 22 prósent innan evrusvæðisins, sem er þó minna en á sama tíma í fyrra, þegar hlutfallið var 21 prósent innan ESB ríkja og 22,8 prósent á evrusvæðinu.
Þrátt fyrir að almennt dragi úr atvinnuleysi er hlutfall ungs fólks án vinnu ennþá gríðarlega hátt í sumum ríkjum. Þannig er tæpur helmingur ungs fólks í Grikklandi án vinnu, eða 48 prósent. Á Spáni er þetta hlutfall 45 prósent, það er 44,1 prósent í Króatíu og 39,3 prósent á Ítalíu.
Hér að neðan má sjá samanburð á atvinnuleysi fólks undir 25 ára í Evrópusambandsríkjunum og á Íslandi.