Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, segir að verið sé að gera auknar kröfur á sauðfjárbændur í nýjum búvörusamningum varðandi landnýtingu. Hún hefur óskað eftir upplýsingum frá samflokkskonu sinni, Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, um stefnumál ríkisins varðandi landgræðslu.
Jóhanna María segist í samtali við Kjarnann hafa óskað eftir upplýsingunum í ljósi nýrra samningsdraga sem snúa að sauðfjárrækt í búvörusamningunum.
„Það er lögð mikil áhersla á landnýtingaþáttinn í gæðastýringunni, það er að segja að bændur þurfa að uppfylla alls kyns skilyrði til að fá borgað. Það er lögð þyngri áhersla á að bændur séu með land í lagi og að féð gangi ekki á landið,” segir Jóhanna María. „Ég vil fá að vita hvort þau verkefni sem eru nú til staðar séu að skila nægilega miklum árangri til að það sé raunhæft að setja þessar kröfur á bændur á móti.”
Auknar kröfur á bændur
Jóhanna María vill fá að vita hver skilgreiningin á landgræðslu sé, hversu mörg félög og samtök eru á Íslandi um málefni landgræðslu, hversu mörg landgræðsluverkefni séu í gangi, hvaða stofnun fari með rannsóknir er varða landgræðslu, hvað ríkið leggi til af fjármunum til landgræðslu á ári og í hvaða farvegi ráðherrann telji landgræðslu vera og hvaða stefna sé höfð að leiðarljósi.
Að hennar mati hefur stefnan verið sæmileg.
„Það er komið inn á þetta í landnýtingaráætluninni og Ísland hefur verið að reyna að marka sér stefnu í þessum málum,” segir hún. „En ég óskaði eftir þessum upplýsingum til að við getum haft betra yfirlit þegar við erum að gera auknar kröfur til bænda.”
Nýr landgræðslustjóri óskast
Í síðustu viku auglýsti umhverfis- og auðlindaráðuneytið laust embætti landgræðslustjóra. Í auglýsingunni segir að verið sé að endurskoða lög um landgræðslu í ráðuneytinnu, meðal annars um starfsemi stofnunarinnar með það að markmiði að efla starf við gróður- og jarðvegsvernd, uppgræðslu og sjálfbæra landnýtingu og hverskonar framkvæmdir því tengdu. Nýr landgræðslustjóri mun fá það verkefni að vinna að framfylgd breytinga komi til þeirra, í samráði við umhverfis og auðlindaráðuneytið.