Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru á hendur fimm mönnum í því sem hefur verið kallað stóra markaðsmisnotkunarmál Glitnis. Ákært er fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Málið verður þingfest 15. apríl næstkomandi.
Á meðal mannanna fimm eru Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis, og Jóhannes Baldursson, fyrrum framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá bankanum. Lárus hlaut fimm ára dóm í Stím-málinu svokallaða í héraðsdómi í desember og Jóhannes fékk tveggja ára dóm í því máli. Þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Hinir þrír fyrrum starfsmenn Glitnis sem ákærðir eru í málinu eru Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónasson.
Embætti sérstaks saksóknara, sem nú hefur runnið inn í embætti héraðssaksóknara, hefur rannsakað markaðsmisnotkun gömlu bankanna þriggja: Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, um margra ára skeið. Þegar hefur verið ákært, og dæmt í markaðsmisnotkunarmálum Kaupþings og Landsbankans.
Hjá Landsbankanum var Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, og Júlíus S. Heiðarsson, sem var sérfræðingur í sömu deild, og Sindri Sveinsson, sem starfaði við eigin fjárfestingar hjá Landsbankanum, allir dæmdir sekir um markaðsmisnotkun í Hæstarétti í febrúar síðastliðnum. Sigurjón hlaut eins árs og sex mánaða fangelsisdóm. Ívar var dæmdur í tveggja ára fangelsi en Júlíus og Sindri hlutu eins árs fangelsisdóma.
Mennirnir fjórir voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Samkvæmt ákæru áttu þeir að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt „fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.“
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmundsson og Bjarki H. Diego voru allir dæmdir sekir í héraðsdómi Reykjavíkur í fyrrasumar í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Tveimur liðum ákæru á hendur Magnúsi Guðmundssyni var vísað frá en að öðru leyti var hann sýknaður af þeim sökum sem á hann voru bornar. Björk Þórarinsdóttir var einnig sýknuð í málinu. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar.