Ölgerð Egils Skallagrímssonar er komin í formlegt söluferli. Óskað hefur eftir tilboðum í fyrirtækið frá innlendum og erlendum fjárfestum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Ölgerðin er einn stærsti gos- og áfengisframleiðandi á Íslandi, ásamt helsta keppinauti sínum Vífilfelli. Auk þess er Ölgerðin ein stærsta heildsala landsins með matvæli og ýmsa sérvöru.Árleg velta fyrirtækisins er um 20 milljarðar króna og starfsmenn um 330 talsins. Á rekstrarárinu sem lauk í febrúar 2015 var EBITDA-hagnaður Ölgerðarinnar, hagnaður fyrir fjármagnsgjöld, skatta og afskriftir, 1,6 milljarðar króna. Hreinn hagnaður hennar var um 200 milljónir króna.
Þetta þýðir að fyrirhuguð skráning Ölgerðarinnar í Kauphöllina, sem hefur verið til umræðu um þó nokkurt skeið, verður ekki að veruleika, að minnsta kosti um sinn. Í Morgunblaðinu er sagt frá því að eftir að núverandi eigendur Ölgerðarinnar sögðu frá skráningaráformum sínum í haust hafi komið í ljós mikill áhugi fjárfesta á beinum kaupum. Nú hefur verið ákveðið að fylgja þeim áhuga eftir og hefja formlegt söluferli.
Stærsti eigandi Ölgerðarinnar í dag er Eignarhaldsfélagið Þorgerður, sem er í meirihlutaeigu framtakssjóðsins Auðar I, sem fer með 45 prósent eignarhlut. Félag í eigu Októs Einarssonar, stjórnarformanns, og Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra, á 38 prósent hlut og félag í eigu millistjórnenda fyrirtækisins á um 17 prósent hlut.
Ölgerðin fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu árið 2010.