Sjúkrahúspresturinn Vigfús Bjarni Albertsson, sem tilkynnti um síðustu helgi að hann ætlaði að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands, mælist með tólf prósent stuðning í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Vert er að taka fram að svarhlutfall í könnuninni var mjög lágt. Kjarninn greindi fyrstur frá mögulegu forsetaframboði Vigfúsar Bjarna 17. febrúar síðastliðinn.
Mestan stuðnings mælist Katrín Jakobsdóttir með, en 25 prósent svarenda vilja helst sjá hana á Bessastöðum. Katrín tilkynnti hins vegar í gærmorgun að hún myndi ekki gefa kost á sér í embættið. Sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, nýtur einnig töluverðs stuðnings þrátt fyrir að hafa tilkynnt í áramótaávarpi sínu að hann muni ekki fara aftur fram. Alls segjast ellefu prósent svarenda enn styðja Ólaf Ragnar í starfið.
Ýmsir aðrir hafa verið að hugleiða, bæði leynt og ljóst, framboð á undanförnum vikum og mánuðum. Andri Snær Magnason rithöfundur sagði í viðtali við Fréttablaðið í byrjun árs að hann væri að íhuga málið. Hann mælist með fimm prósent stuðning í könnun miðla 365. Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum forsætisráðherra, mælist með fjögur prósent stuðning, en Davíð hefur ekkert gefið upp um hvort hann ætli í forsetaslag eður ei.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði Kjarnanum 23. febrúar að hún væri að íhuga framboð og þeir sem þekkja til segja að Þorgerður Katrín hafi m.a. viljað bíða eftir niðurstöðu Katrínar Jakobsdóttur áður en hún tilkynnti um sína ákvörðun. Stuðningur við hana sem forseta er þrjú prósent, samkvæmt könnuninni. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur einnig verið sterklega orðaður við framboð. Hann mælist með tvö prósent stuðning, eða jafn mikinn og Ólafur Jóhann Ólafsson. Stuðningur við Höllu Tómasdóttur, sem á hefur verið skorað að bjóða sig fram, var einnig mældur. Hann reyndist eitt prósent.
Þeir sem þátt tóku í könnun 365 miðla var boðinn sá valkostur að nefna aðra en þá sem spurt var beint um. Á meðal þeirra sem voru nefndir voru Jón Gnarr (tvö prósent), Ástþór Magnússon (eitt prósent), Bogi Ágústsson (eitt prósent), Salvör Nordal (eitt prósent), Sigrún Stefánsdóttir (eitt prósent), Stefán Jón Hafstein (eitt prósent), Þorgrímur Þráinsson (eitt prósent), Þóra Arnórsdóttir (eitt prósent) og enginn (eitt prósent). Þá sögðust eitt prósent aðspurðra vilja leggja embættið niður.
Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.082 manns þar til náðist í 794 dagana 8. og 9. mars. Svarhlutfallið var því 73,4 prósent. Svarhlutfall í könnuninni er mjög lágt. Alls tóku 39 prósent sem spurðir voru afstöðu til spurningarinnar. Spurt var: Hvern viltu sjá sem næsta forseta Íslands?