Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, nýtur langmest trausts þeirra ráðherra sem nú skipa ríkisstjórn Íslands, samkvæmt nýrri könnun fréttastofu 365 miðla. Alls segjast þrettán prósent aðspurðra treysta Bjarna best, sjö prósent segjast treysta Ólöfu Nordal innanríkisráðherra best en sex prósent Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Mesta athygli vekur að einungis þriðjungur þeirra sem svöruðu könnuninni voru reiðubúnir til að nefna ráðherra sem þeir báru mest traust til. Þá sögðust 48 prósent aðspurðra vera óákveðnir í afstöðu sinni en 19 prósent neituðu að svara spurningunni.
Í frétt um könnunina í Fréttablaðinu í dag kemur fram að einnig hafi verið spurt um hvaða ráðherra njóti minnst trausts. Niðurstaðan verður kynnt í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld og er sérstaklega tekið fram að fleiri svarendur hafi tekið afstöðu til þeirrar spurningar.
Aðferðarfræði könnunarinnar var þannig að hringt var í 1.082 mann þar til náðist í 794 samkvæmt lagskiptu úrtaki. Svarhlutfallið var því 73,4 prósent af voru þeir spurðir: Hvaða ráðherra berðu mest traust til? Af þeim sem svöruðu vildi því einungis 262 taka afstöðu til spurningarinnar, 103 nefndu Bjarna Benediktsson, um 58 Ólöfu Nordal og um 55 Sigmund Davíð. Fæstir nefndu Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra, eða eitt prósent svarenda. Það þýðir að rúmlega tveir hafi sagt að þeir treysti Sigrúnu best.
Ríkisstjórnin mældist með 36,7 prósent stuðning í síðustu birtu könnun Gallup.