Til stóð að embætti sérstaks saksóknara, sem nú hefur runnið inn í embætti héraðssaksóknara, myndi sækja um réttarvernd fyrir Magnús Pálma Örnólfsson, fyrrverandi yfirmann eigin viðskipta hjá Glitni, á grundvelli uppljóstraraákvæðis vegna stóra markaðsmisnotkunarmáls bankans sem ákært var fyrir í byrjun mánaðar. Hann hafði stöðu grunaðs manns við rannsókn málsins lengi vel. Slíka réttarvernd gegn ákæru var hægt að veita ef viðkomandi gat veitt upplýsingar um saknæma háttsemi annarra. Magnús Pálmi hlaut réttarvernd í Stím-málinu svokallaða og er annar tveggja manna sem hana hafa hlotið í íslenskum hrunmálum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans reyndi ekki á að sækja um réttarvernd fyrir Magnús Pálma í stóra markaðsmisnotkunarmálinu þar sem embættið mat sem svo að ekki væru nægjanlegar ástæður til að ákæra Magnús Pálma. Því reyndi ekki á réttarvernd hans í málinu.
Það hefur vakið töluverða athygli að þrír undirmenn Magnúsar Pálma, sem störfuðu sem miðlarar hjá eigin viðskiptum Glitnis, voru ákærðir í málinu auk tveggja stjórnenda bankans, meðal annars fyrrverandi forstjóra hans. Það er þó ekki einsdæmi að stjórnanda sé sleppt úr keðjunni þegar ákært er fyrir stórfelld markaðsmisnotkunarbrot. Í stóra markaðsmisnotkunarmáli Landsbanka Íslands var fyrrverandi yfirmaður verðbréfasviðs bankans ekki ákærður, en hann var yfirmaður þess sem stýrði eigin viðskiptum Landsbanka Íslands. Sá síðarnefndi og bankastjóri Landsbanka Íslands voru hins vegar ákærðir.
Ákvæðið ekki lengur til staðar í lögum
Uppljóstraraákvæði, sem gat veitt aðilum réttarvernd gegn ákæru ef þeir gátu veitt upplýsingar um saknæma háttsemi annarra, er ekki lengur í íslenskum lögum. Ákveðið, sem gilti einungis í efnahagsbrotamálum, var til staðar í lögum um embætti sérstaks saksóknara en þau féllu úr gildi um síðustu áramót
Ákvæðið hefur verið umdeilt. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa tveir menn fengið réttarvernd gegn ákæru í hrunmálum þar sem upplýsingar bentu til þess að þeir hafi brotið af sér, gegn því að þeir veittu saksóknara upplýsingar sem styrkti málatilbúnað hans. Annar mannanna, Rósant Már Torfason, hlaut slíka réttarvernd árið 2009. Hinn, Magnús Pálmi Örnólfsson, hlaut réttarverndina með bréfi frá ríkissaksóknara í febrúar 2014. Hann hafði áður haft réttarstöðu grunaðs manns í Stím-málinu svokallaða. Þeir störfuðu báðir fyrir Glitni fyrir hrun.
Þá ásakaði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Halldór Bjarkar Lúðvígsson, fyrrum framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka, um að hafa samið sig frá ákæru í hinu svokallaða CLN-máli gegn því að bera vitni. Kjarninn greindi frá því fyrr á þessu ári að Halldór Bjarkar segi það aldrei hafa verið rætt milli hans og starfsmanna sérstaks saksóknara að fallið yrði frá ákæru gegn honum fyrir vitnisburð í málinu. Embætti sérstaks saksóknara staðfesti það einnig að ekki hefði verið samið við Halldór Bjarkar. Hann hefur því ekki hlotið slíka réttarvernd.
Þótti ekki áreiðanlegt vitni
Aðalmeðferð Stím-málsins, þar sem Magnús Pálmi hlaut réttarvernd, fór fram í lok síðasta árs og lauk með því að sakborningar í málinu hlutu þungu dóma í héraðsdómi. Magnús Pálmi var á meðal vitna í málinu. Í dómi héraðsdóms er á það bent að Magnús Pálmi hafi við fyrstu yfirheyrslur í málinu sagt, að hann hefði einn tekið ákvörðun um kaup á skuldabréfi Sögu Capital, sem eru lykilviðskipti í málinu. Síðan breytir hann framburði sínum. Í dómnum segir um þetta: „Líta verður til þess að á því stigi hafði lögregla kynnt honum gögn sem þóttu leiða í ljós sekt [Magnúsar Pálma]. Á því stigi hafði lögreglan jafnframt kynnt honum þá tilgátu að til hafi komið þrýstingur frá yfirmanni hans um að samþykkja kaupin. Svo sem hér greinir hefur [Magnús Pálmi] orðið missaga undir meðförum málsins. Dómurinn telur að skoða verði framburð [Magnúsar Pálma] í þessu ljósi sem og sönnunargildi framburðar hans."