Meðallaun lögreglumanna á Íslandi voru 339.121 krónur á mánuði árið 2014. Þau voru lægri það árið en árin 2012 og 2013 í krónum talið. Laun lögreglumanna á árinu 2014 voru rúmlega 30 þúsund krónum lægri en þau voru níu árum áður, árið 2005. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um laun lögreglumanna. Svarið var birt á vef Alþingis í dag. Um er að ræða heildarlaun, þ.e. fyrir greiðslu skatta og gjalda.
Í svarinu eru meðallaun lögreglumanna borin saman við meðallaun þeirra ríkisstarfsmanna sem eru í SFR, stéttarfélagi í almannaþjónustu. Í þeim samanburði kemur fram að laun lögreglumanna hafa að meðaltali hækkað meira en laun þeirra sem eru í SFR frá árinu 1986. Frá síðustu aldarmótum og fram að hruni hækkuðu laun lögreglumanna sérstaklega umtalsvert fram yfir laun þeirra opinberu starfsmanna sem greiða í SFR. Mjög hefur hins vegar dregið saman með hópunum eftir hrun.
Með svari Bjarna fylgir tafla sem sýnir árleg meðallaun með verðlagi uppfærðu til nóvember 2014. Þar kemur fram að meðallaun lögreglumanna voru hæst árið 2005, þegar þau voru 369.443 krónur. Launin lækkuðu síðan skarpt eftir hrun en tóku við sér á ný árið 2011. Árið 2012 voru meðallaun lögreglumanna 342.481 þúsund krónur á mánuði og 339.379 krónur árið eftir.
Árleg meðallaun félagsmanna í SFR á árinu 2014 eru um sjö prósent lægri, eða 315.280 krónur.