Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hefur tilkynnt að hún bjóði sig fram í embætti varaformanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fram fer í júní. Katrín Júlíusdóttir, núverandi varaformaður flokksins, hefur þegar tilkynnt að hún sækist ekki eftir endurkjöri og að hún ætli að hætta í stjórnmálum eftir yfirstandandi kjörtímabil. Sema Erla er 29 ára gömul. Hún er stjórnmálafræðingur að mennt með meistaragráðu í Evrópufræðum og Evrópurétti frá Edinborgarháskóla.
Í yfirlýsingu sem Sema Erla hefur sent fjölmiðlum kemur fram að hún vilji að Samfylkingin „haldi áfram baráttunni fyrir jöfnuði, réttlæti og velferð, m.a. með áherslu á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, aðgengilegri húnsæðismarkað, málefni ungra- og barnafjölskyldna sem og öryrkja og aldraðra."
Hún telur að íslenskt samfélag standi frammi fyrir mörgum áskorunum og vill að Samfylkingin taki forystu í „u í baráttunni gegn vaxandi fordómum og þjóðernisrembingi og hafni samstarfi við stjórnmálaflokka sem ala á útlendingaandúð og mismunun vegna uppruna, þjóðernis, trúar, menningar eða annarra þátta sem einkenna líf og lífstíl einstaklinga."
Tveir hafa þegar boðið sig fram til embættis formanns Samfylkingarinnar sem kosið verður um á landsfundi í júní, þeir Helgi Hjörvar og Magnús Orri Schram. Á fundinum verður raunar kosið um á ný í öll helstu embætti flokksins. Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingarinnar, hefur enn ekki gefið upp hvort hann muni sækjast eftir endurkjöri.