Samfylkingin og Vinstri græn mælast bæði með 7,8 prósent fylgi í nýrri skoðanakönnun MMR. Samfylkingin hefur aldrei mælst með lægra fylgi í könnunum fyrirtækisins, og VG aðeins einu sinni. Stjórnarflokkarnir mælast báðir með meira fylgi en í síðustu könnun. Alls segjast 23,4 prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn en þeir voru 21,6 prósent í síðustu könnun sem birtist fyrir rúmum mánuði síðan. Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 12,8 prósent en var 10,8 prósent í síðustu könnun.
Píratar eru eftir sem áður langstærsti flokkur landsins, líkt og þeir hafa verið undanfarið ár. Fylgi flokksins mælist nú 37 prósent. Þá segjast 4,2 prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa Bjarta framtíð og 2,1 prósent að þeir myndu kjósa annað.
Vert er að taka fram að allar breytingar á fylgi flokkanna milli mánaða eru innan vikmarka.
Allir flokkar utan Pírata eru töluvert undir kjörfylgi sínu. Samfylkingin hlaut 12,9 prósent atkvæða í síðust kosningum og þótti sú niðurstaða afhroð fyrir flokkinn. Vinstri græn fengu 10,9 prósent þegar talið var upp úr kössunum í apríl 2013 og Björt framtíð 8,2 prósent. Mest hafa þó stjórnarflokkarnir misst. Framsóknarflokkurinn, sem var óumdeildur sigurvegari kosninganna 2013 hlaut þá 24,4 prósent, en mælist nú með tæplega helming þess fylgis. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,8 prósent í síðustu kosningum, eða 3,4 prósent meira en flokkurinn mælist nú með. Hann er nú með aðeins minna fylgi en í verstu kosninganiðurstöðu sinni frá upphafi, sem var í kosningunum 2009.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist örlítið hærri en í síðustu könnun. Hann var 31,9 prósent í síðasta mánuði en mælist nú 32,7 prósent.