Síminn hefur selt allt hlutafé sitt í dótturfélögunum Talenta og Staka Automation. Deloitte og framkvæmdastjórar dótturfélaganna kaupa fyrirtækin. Um 35 starfsmenn starfa hjá þeim báðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum, en kaupverðið í viðskiptunum er ekki gefið upp.
„Markmiðið með kaupunum er að byggja grunn að öflugri upplýsingatækniþjónustu Deloitte á Íslandi. Hjá Deloitte starfa um 30 þúsund starfsmenn í upplýsingatækniþjónustu um allan heim og munu Talenta og Staki tengjast okkar öfluga alþjóðlega neti sérfræðinga,“ segir Sigurður Páll Hauksson, forstjóri Deloitte.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir söluna hluta af stefnumörkun Símans. „Við höfum endurskilgreint kjarnastarfsemi félagsins síðustu misseri og teljum að með því að einbeita okkur að Símanum, Sensa og Mílu náum við betri árangri í rekstri, samsteypan verði einfaldari, eftirfylgni verkefna og ákvarðanir auðveldari. Síminn standi þar með á enn styrkari fótum en fyrir,“ segir Orri í tilkynningu.
Kaup Deloitte á Staka og Talenta eru háð m.a fyrirvörum áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Hvað gerir Staki? Staki Automation ehf. leggur megináherslu á sjálfvirkni ferla. Starfsemin skiptist í
höfuðatriðum í sjálfvirkni og stýringar á sviði iðnaðar og hugbúnaðargerðar, stýringu og
meðhöndlun upplýsinga og sjálfvirkni og stýringu á ferlum með áherslu á rafræna
reikninga. Þá þjónustar Staki á sviði viðskiptagreindar þar sem sérfræðingar fyrirtækisins
veita ráðgjöf tengda greiningu gagna, úttektum ferla, nýtingu upplýsinga og uppsetningu
á vöruhúsi gagna. Félagið var alfarið í eigu Símans og þar vinna 22 starfsmenn.
Hvað gerir Talenta?
Talenta ehf. sérhæfir sig í ráðgjöf, innleiðingu, þjónustu og þróun á SAPviðskiptahugbúnaði.
Talenta hefur einnig haslað sér völl á sviði samþáttunar SAP við önnur
kerfi. Hjá Talenta vinna reynslumiklir ráðgjafar með umfangsmikla þekkingu á SAP-kerfum,
allt frá hönnun til reksturs. Áratugastarf með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins
hefur byggt upp öfluga þekkingu í félaginu sem þjónar nú breiðum hópi fyrirtækja.
Starfsmenn Talenta eru fjórtán.
Hvað gerir Deloitte?
Deloitte er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði endurskoðunar og ráðgjafar. Um 250.000
manns starfa hjá fyrirtækinu í meira en 150 löndum.
Upplýsingatækniþjónusta og upplýsingatækniráðgjöf hefur undanfarin ár verið einn helsti
vaxtarbroddur Deloitte á heimsvísu, enda hefur eftirspurn eftir slíkri þjónustu verið að
aukast. Um 30 þús. starfsmenn starfa í upplýsingatækniþjónustu hjá Deloitte um allan
heim. Þar af um 12 þús. sérfræðingar í SAP lausnum.