Staða efnahagsmála var í öndvegi á aðalfundi Seðlabanka Íslands í gær, eins og ávallt þegar sá fundur fer fram. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, fór ítarlega yfir sviðið og það sama má segja Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Í máli þeirra beggja kom skýrt fram, að staða efnahagsmála væri góð, og merkin um framhaldið væri það einnig. Skuldir eru að lækka, verðbólga hefur haldist innan 2,5 markmiðs í um tvö ár, og mikill þróttur virðist nú í hagkerfinu.
Framundan er svo lokahnykkurinn í að losa um fjármagnshöftin.
Þá mun koma í ljós hvernig staðan mun þróast, en töluverðar áhyggjur hafa komið fram upp á síðkastið, um að krónan mun styrkjast mikið, og þar með draga úr samkeppnishæfni útflutnings og ferðaþjónustunnar.
Ljóst er að krefjandi hagstjórn er framundan, þó vel ári nú. Það kom skýrt fram í máli Bjarna að hann teldi rúm fyrir töluverðar fjárfestingar hins opinbera á næstu misserum, og má því gera ráð fyrir að fjárfestingar í hagkerfinu verði umtalsverðar.
Spurningin er; hversu hratt er hægt að ganga um gleðinnar dyr, án þess að það hafi slæmar afleiðingar? Vonandi hafa ráðamenn hér á landi lært af reynslunni, sem bjó til þann vanda sem nú er verið að leysa úr.