Guðmundur Franklín Jónsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Guðmundur sendi frá sér fyrir hádegi.
Guðmundur Franklín segir í fréttatilkynningunni að eftir því sem hann hafi elst og þroskast geri hann sér betur grein fyrir því hvað hann sé heppinn að vera Íslendingur, „og þakklátur fyrir þau forréttindi að hafa fæðst og alist upp í þessu fallega landi okkar. Í ljósi þessa, ætla ég að bjóða fram krafta mína og hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti til forseta Íslands með þá einlægu von í hjarta, að geta þjónað fólkinu í landinu af auðmýkt og heiðarleika.“
Guðmundur Franklín stofnaði og var formaður í stjórnmálaflokknum Hægri grænum, sem bauð fram í síðustu þingkosningum, en var nokkuð frá því að ná inn á þing. Flokkurinn var lagður niður á dögunum og rann inn í Íslensku þjóðfylkinguna, þjóðernissinnaðan flokk sem hyggst bjóða fram í næstu kosningum. Guðmundur Franklín hafði sagt skilið við flokkinn áður en það gerðist.