Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfur Reykjavíkurborgar um að svokallaðri neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði lokað. Sömuleiðis var innanríkisráðherra gert að breyta skipulagi flugvallarins til samræmis við það.
Í málinu krafðist Reykjavíkurborg þess að Ólöf Nordal innanríkisráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, yrði gert að loka NA/SV-flugbraut (flugbraut 06/24), sem oft er kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli og endurskoða skipulagsreglur fyrir völlinn. Meginágreiningur aðila laut að túlkun og þýðingu skjals sem þáverandi innanríkisráðherra, Hann Birna Kristjánsdóttir, og borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, undirrituðu 25. október 2013. Reykjavíkurborg taldi að skjalið hafi falið í sér bindandi loforð af hálfu stefnda um að loka umræddri flugbraut Reykjavíkurflugvallar . Af hálfu ríkisins var því hins vegar hafnað af ýmsum ástæðum að skjalið hafi falið í sér loforð af hans hálfu eða skuldbindandi samning.
Nú hefur héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að loka eigi brautinni. Í dómsorði segir enn fremur að innanríkisráðherra eigi að endurskoða skipulagsreglur til samræmis við þá lokun. Innanríkisráðherra hefur 16 vikur frá dómsuppkvaðningu til að bregðast við niðurstöðunni, annars þarf ríkið að greiða eina milljón króna á dag í dagsektir til Reykjavíkur.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, Kristján Ásgeirsson arkitekt, Ingólfur Gissurarson, verkefnastjóri hjá réttargæslustefnda og Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs réttargæslustefnda.
Lokun hefur lengi staðið til
Lokun brautarinnar hefur staðið árum saman. Árið 2005 undirrituðu þáverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir og þáverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson samkomulag um samgöngumiðstöð sem rísa skyldi í Vatnsmýrinni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 undirrituðu Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, samkomulag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyrirvari á því samkomulagi að það myndi rísa samgöngumiðstöð við enda brautar 06/24.
Í október 2013 undirritaði Hanna Birna, þá innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, samþykkt um að ljúka vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Þegar því yrði lokið átti að tilkynna um lokun brautarinnar. Í desember 2013 óskaði innanríkisráðuneytið eftir því að undirbúningur yrði hafin að lokun flugbrautarinnar, með þeim fyrirvara að ekkert yrði gert fyrr en að Rögnunefndin svokallaða myndi skila niðurstöðum sínum. Skýrslu hennar var skilað í fyrra og niðurstaða nefndarinnar leysti ekki deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar á nokkurn hátt. Ákvörðun á grundvelli tillagna hennar liggur enn ekki fyrir.
Hanna Birna skuldbatt ríkið
Í dómi héraðsdóms sem féll í dag segir m.a. að á það verði fallist með Reykjavíkurborg „að þáverandi innanríkisráðherra, Hann Birna Kristjánsdóttir, hafi að lögum skuldbundið sig, fyrir hönd stefnda, með þeirri yfirlýsingu sem hún undirritaði 25. október 2013 ásamt borgarstjóra stefnanda, Jóni Gnarr. Verður yfirlýsingin jafnframt ekki túlkuð á aðra leið en að meginskylda ráðherrans hafi falist í því að loka umræddri flugbraut. Jafnframt verður á það fallist að efndatími að þessu leyti hafi verið nægilega ákveðinn. Svo sem fyrr greinir var ekkert því til fyrirstöðu að ráðherrann lofaði því að skipulagsreglur Reykjavíkurflugvallar skyldu endurskoðaðar til samræmis við breytta stærð vallarins, enda þótt ráðherrann gæti ekki skuldbundið um nánari og endanleg atriði reglnanna. Var meginefni skyldu stefnda því einnig nægilega skýrt að þessu leyti.
Að íslenskum rétti gildir sú grunnregla að gerða samninga skuli halda. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ekkert komið fram í málinu sem leitt getur til þess að víkja beri frá þessari reglu. Verður því efnislega fallist á aðalkröfu stefnanda. Með hliðsjón af eðli þeirra ráðstafana sem kröfugerð stefnanda lýtur að þykir óraunhæft að stefnandi leiti atbeina sýslumanns til fullnustu skyldu stefnda. Verður því fallist á að eðlilegt sé að kveða á um að stefndi efni skyldu sína gagnvart stefnanda að viðlögðum dagsektum, svo sem krafist er af stefnanda."
Íslenska ríkið getur áfrýjað ákvörðuninni til Hæstaréttar.