Fólk á aldrinum 36 til 45 ára kaupir föt og fylgihluti fyrir 235 þúsund krónur á ári, samkvæmt tölum Meniga. Þetta gerir um 20 þúsund krónur á mánuði. Þessi aldurshópur, auk þeirra sem eru á aldrinum 45 til 55 ára, eyða mestu í þennan vöruflokk, en eru líka með hæstu ráðstöfunartekjurnar. Gera má ráð fyrir að þessi aldurshópur versli einnig föt og fylgihluti fyrir börn sín. Kjarninn fékk tölulegar upplýsingar frá Meniga sem sýna neysluhegðun um 50.000 Íslendinga árið 2015.
Lindex er vinsælasta fatabúðin hjá Meniganotendum og H&M er í öðru sæti. Það er athyglisvert, þar sem H&M er ekki með verslun hér á landi. Sportsdirect er þriðja vinsælasta búðin. Aðrar fataverslanir sem náðu á listann eru Útilíf, 66° Norður, Debenhams, Zara, Body Shop, Next og Dressmann.
Elsti aldurshópurinn, 66 ára og eldri, eyða minnstu í föt og fylgihluti á mánuði, rúmlega 9.000 krónum. Yngsti aldurshópurinn, 16 til 25 ára, eyðir svo næst minnstu, tæplega 10.000 krónum.
Úrvinnsla Meniga byggir á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. Tölurnar byggja á fjárhagslegum 16 milljón færslum 50 þúsund notenda sem veltu um 84 milljörðum króna árið 2015. Meniga greinir ekki eftir heimilum, heldur meðaltalsnoktun einstaklinga.
Kjarninn hefur einnig fjallað um skyndibitaát Íslendinga, fjarskiptamarkaðinn og áfengiskaup með tölum Meniga.