Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann tjáir sig í fyrsta sinn um hlutverk forseta Ísland. Össur hefur ítrekað verið orðaður við embættið en hann hefur harðneitað að tjá sig nokkuð um málið.
Hann segir að umræðan um forsetakosningarnar hafa snúist um flest annað en þá verðleika sem breytt inntak forsetaembættisins í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar krefst af þeim sem sækjast eftir kjöri. Þá segir Össur fæsta átta sig á þeim breytingum sem geta orðið á hlutverki forseta verði ný stjórnarskrá samþykkt á næsta kjörtímabili.
Í greininni telur Össur upp þrjá hluti sem Ólafur Ragnar gerði til að breyta forsetaembættinu, eða „braut út jaðar hins pólitíska akurlendis Bessastaða" eins og hann orðar það. Þar nefnir hann norðurslóðaumræðuna, málsvarshlutverk gagnvart Íslandi og beitingu málskotsréttarins. Hann segir það síðastnefnda vera mikilvægasta framlag forsetans.
„Forsetakjör er verðleikapróf. Þar metur þjóðin staðfestu, feril, tjáningarhæfni, lífsreynslu, og mannlega eiginleika frambjóðanda andspænis þeim vaxandi kröfum sem gerðar eru til forsetans. Þessvegna er mikilvægt að þær séu skýrðar og ræddar strax í upphafi," skrifar Össur í lok greinarinnar.