Bernie Sanders, sem nú berst við Hillary Clinton um að verða forsetaefni Demókrata, hefur misst byr úr seglum baráttu sinnar að undanförnu, og margir skrifa það á umfjöllun helstu fjölmiðla í Bandaríkjunum, ekki síst dagblaða sem halda einnig út ritstjórnarvinnu á vefnum.
Hillary hefur fengið opinberan stuðning frá hverju stórblaðinu á fætur öðru að undanförnu, en þau sem hafa verið eindregnust í sínum stuðningi eru The New York Tímes, sem í ritstjórnarskrifum, meðal annars frá 31. janúar síðastliðnum, hefur opinberða stuðning sinn við að hún verði næsti forseti Bandaríkjanna, og síðan The Washington Post. Hinn 23. mars síðastliðinn bættist svo Rolling Stone í hópinn með opinberri stuðningsyfirlýsingu.
Þetta hefur Sanders verið ósáttur með, og talað skýrt um að „elítufjölmiðlar“ Bandaríkjanna vilji hann ekki og sniðgangi kraftmikla baráttu hans nær alveg, og beinlínis vilji ekki ræða um málin sem skipta mestu máli.
Úrslit forvala að undanförnu hjá Demókrötum komu ekki beinlínis á óvart, nema kannski fyrir þá sem héldu í vonina um að kannanir væru hættar að geta spáð fyrir um niðurstöðu kosninganna með mikilli vissu eins og gerðist í Michigan vikuna áður þegar Sanders vann óvænt þvert á spár. Þessi staða var meðal annars til umfjöllunar í fréttaskýringu hér á vef Kjarnans í síðustu viku.
Orðið erfitt fyrir Sanders
En eins og spáð var fyrir um þá sigraði Clinton öll þau ríki sem í pottinum voru nema Illinois (156 kjörmenn). Þar sigraði Sanders með þriggja prósentustiga mun. Í lok þessa kvölds hafði hún sigrað Flórída (214), Missouri (71), Norður Karólínu (107) og Ohio (143). Af þeim 691 kjörmönnum sem í pottinum voru þetta kvöld, fór Hillary heim með 365 og Sanders með 326.
Til þess að vinna útnefninguna þarf 2.383 kjörmenn eða atkvæði. Í dag er Hillary með í heildina 1.606 kjörmenn, sem skiptist í 1.139 kjörmenn og 467 ofurkjörmenn en það eru atkvæði sem elíta flokksins hefur lofað henni og mun greiða á landsfundinum sjálfum í júlí. Sanders er með í heildina 851 kjörmenn og þar af aðeins 26 ofurkjörmenn. Samkvæmt fréttamiðlinum MSNBC þá þarf Sanders að vinna 65 prósent af öllum kjörmönnunum sem eftir eru í pottinum svo hann eigi möguleika á útnefningunni, en enn eftir á að kjósa á 29 stöðum í landinu.
Í könnunum á landsvísu hafa Hillary og Sanders verið að mælast með sambærilegt fylgi, oft á tíðum, nú síðast í könnun Bloomberg, þá mældist Sandest með einu prósentustigi meira fylgi en Hillary. Kannanir sem þessar segja hins vegar litla sögu um hvor stendur betur að vígi, því rýna þarf í stöðu mála í hverju ríki til að þess að átta sig á því hvernig staðan er í reynd.
Trump það besta sem gat komið fyrir Hillary
Sanders er ennþá með mikinn kraft í sinni kosningabaráttu og fyllir hallir víða, þegar hann heldur ræður um stefnumál sín. Hann hefur talað skýrt gegn „elítunni“ í Washington og náð þannig að miklum stuðningi hjá ungu fólki og þeim sem krefjast breytinga í Bandaríkjunum, einkum þegar kemur að ójöfnuði. Þegar forvalskosningarnar hófust, og úrslit komu fram, stefndi margt í jafna baráttu Hillary og Sanders, en nú virðist allt benda til þess að Hillary sé að hafa nokkuð þægilegan sigur.
Í fréttaskýringu á vef Washington Post í gær, kemur fram að uppgangur Donald Trump, hafi unnið með Hillary Clinton. Hatrammar deilur hafa víða verið milli stuðningsmanna Trump og Sanders, á meðan barátta Hillary hefur verið hófstilltari og margir þeir sem staðsetja sig nálægt miðjunni í bandarískum stjórnmálum, virðast vera að sýna Hillary stuðning, fremur en Sanders. Allt eykur þetta líkurnar á að Hillary verði forsetaefni Demókrata.