Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að hann hafi alltaf staðið í þeirri trú að félag, sem hann átti þriðjungshlut í vegna fasteignaviðskipta í Dubai, hafi verið skráð í Lúxemborg. Það hafi ekki verið fyrr en erlendur blaðamaður hafi bent honum á það að hann hafi komist að því að félagið, Falson & Co, hafi verið skráð á Seychelles-eyjum. Það hafi engin áhrif haft í skattalegu samhengi. Þetta segir Bjarni á Facebook-síðu sinni.
Fyrir skömmu var greint frá því að bæði Bjarni og Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, séu bæði á lista yfir þá íslensku aðila sem tengjast aflandsfélögum. Ólöf sendi fréttastofu RÚV svar í dag þar sem fram kemur að það hafi verið ráðgjafar Landsbankans í Lúxemborg sem hafi lagt það til við eiginmann hennar, Tómas Sigurðsson, að stofnað yrði sérstakt erlent fjárfestingafélag utan um fjárfestingar. Bankinn hafi verið skráður eigandi þess en „aldrei kom þó til þess að Tómas nýtti félagið til fjárfestinga eða tæki yfir eignarhald þess. Félagið er því okkur hjónum óviðkomandi. Eftir því sem við komumst næst var félagið lagt niður árið 2008,“ skrifar Ólöf.
Bjarni segir að honum þyki þetta miður, en vilji jafnframt ítreka að viðskipti hans hafi ekki verið í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi. „Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 m.kr. þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað fyrir viðskiptafélaga minn um kaup á fasteign í Dubai. Ég gerði grein fyrir kaupum á félaginu og niðurlagningu þess gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og hef alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnaþing í Lúxemborg,“ skrifar Bjarni. Eini tilgangur félagsins hafi verið að halda utan um eignina í Dubai, en svo hafi farið að gengið hafi verið úr kaupunum árið 2008 og ári seinna hafi málið verið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli.
Hér að neðan má lesa yfirlýsingar Bjarna og Ólafar á Facebook.
Yfirlýsing Bjarna:
„Að gefnu tilefni vil ég taka eftirfarandi fram:
Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 m.kr. þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað fyrir viðskiptafélaga minn um kaup á fasteign í Dubai. Ég gerði grein fyrir kaupum á félaginu og niðurlagningu þess gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og hef alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnaþing í Lúxemborg. Það var ekki fyrr en mér barst ábending frá erlendum blaðamanni að ég komst að því að svo hefði ekki verið, en umrætt félag Falson & Co, var skráð á Seychelles-eyjum. Það hafði þó engin áhrif í skattalegu samhengi.
Í þessu ljósi ber að skoða svör mín í Kastljósi 11. febrúar 2015, þar sem ég sagði aðspurður að ég hefði ekki átt neinar eignir eða viðskipti í skattaskjólum. Þessi svör gaf ég eftir bestu vitund, enda taldi ég mig aldrei hafa átt neitt á aflandssvæði. Ég vil eins og aðrir hafa það sem sannara reynist og þykir þetta miður, en vil jafnframt ítreka að þessi viðskipti mín voru ekki í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi.
Eini tilgangur félagsins var að halda utan um eignina í Dubai en svo fór að við tókum aldrei við henni. Ákveðið var að ganga út úr kaupunum árið 2008 og árið 2009 var málið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli. Það hafði engar tekjur, skuldaði ekkert, tók aldrei lán, átti engar aðrar eignir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starfsemi. Við gildistöku reglna um hagsmunaskráningu þingmanna átti ég því hvorki hlut í félagi í atvinnurekstri né aðrar fasteignir en húsnæði til eigin nota. Rétt er að taka fram að um þessi fasteignakaup hefur áður verið fjallað í fjölmiðlum árið 2010.
Ég tók þá ákvörðun er ég bauð mig fram til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins að stunda ekki viðskipti samhliða starfi mínu og hef frá árinu 2009 ekki átt hlutabréf. Sem fjármálaráðherra hef ég beitt mér fyrir aðild Íslands að upplýsingaskiptasamningum um skattamál við önnur lönd, sem tryggja sjálfvirkar og betri upplýsingar fyrir íslensk skattyfirvöld. Að auki lagði ég til við ríkisstjórn Íslands að sérstök fjárheimild yrði sótt fyrir kaup á skattagögnum.
Í þessum efnum tel ég rétt að fylgja einfaldri reglu. Það eiga allir að skila sínu til sameiginlegs rekstrar samfélagsins. Langflestir fylgja þessari sjálfsögðu reglu. Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur og vilja fá frítt far með samborgurum sínum sem halda uppi lífsgæðunum á Íslandi.“
Yfirlýsing Ólafar:
„Vegna frétta:
Hvorki ég né eiginmaður minn eigum eða höfum átt hlut í fjárfestingar- eða eignarhaldsfélögum sem skráð eru á Bresku Jómfrúareyjum eða í nokkru öðru landi sem talin eru til skattaskjóla.
Miðvikudaginn 16. mars síðastliðinn barst mér fyrirspurn frá tveimur þýskum blaðamönnum, Frederik Obermaier og Bastian Obermayer, fyrir hönd dagblaðsins Süddeutsche Zeitung og útvarps- og sjónvarpsstöðvarinnar NDR, um Dooley Securities S.A, hlutafélag sem mun hafa veriðskráð á Bresku Jómfrúareyjunum. Fyrirspurn þeirra snéri að hugsanlegum tengslum mínum við félagið.
Mánudaginn 22. mars svaraði ég fyrirspurninni. Nokkrum dögum áður hafði, Tómas Sigurðsson, eiginmaður minn einnig svarað fyrirspurninni. Tómas hefur unnið fyrir alþjóðlegt fyrirtæki undanfarin 12 ár, fyrst hér á Íslandi en síðar í Evrópu og nú starfar hann í New York.
Síðari hluta ársins 2006 leitaði Tómas ráðgjafar hjá Landsbanka Íslands varðandi fjármál og kaupréttarsamninga sem voru hluti af starfskjörum hans . Markmiðið var að njóta leiðsagnar bankans varðandi hugsanlegar fjárfestingar í erlendum verðbréfum enda starfsvettvangur Tómasar alþjóðlegur.
Ráðgjafar Landsbankans lögðu til að stofnað yrði sérstakt erlent fjárfestingarfélag. Landsbankinn í Lúxemborg stofnaði félagið, Dooley Securities og var bankinn skráður eigandi þess. Í undibúningi þessa máls veitti bankinn Tómasi umboð á umrætt félag og óskaði hann jafnframt eftir því að ég fengi sambærilegt umboð. Það mun vera skýring á því að nöfn okkar eru á umræddum lista. En aðstæður breyttust og aldrei kom til þess að Tómas tæki yfir eignarhald þessa félags eða nýtti það til fjárfestinga. Allt þetta gerðist áður en ég tók sæti á Alþingi og voru þessi áform löngu aflögð þegar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna tóku gildi.“