Íslenska tæknifyrirtækið Kaptio ehf. hefur fengið
fjármögnun upp á 325 milljónir króna frá tveimur sjóðum, hinum
íslenska Frumtaki 2 og bandaríska áhættufjárfestingasjóðnum Capital A Partners,
og fyrrum fjárfestum, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Kaski. Fjármögnun er
liður í því að gera Kaptio kleift að styrkja vöru á Kaptio Travel lausninni á
Bretlandsmarkaði og undirbúa frekari vöxt fyrirtækisins alþjóðlega. Þetta kemur
fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Þetta er í annað sinn sem Kaptio fær utanaðkomandi fjármögnun, en snemma árs 2015 tilkynnti fyrirtækið um nýja fjármögnun frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Kaski ehf. fjárfestingafélagi, upp á 120 milljónir króna. Áhættufjárfestingasjóðurinn Capital A Partners fjárfestir í ungum tæknifyrirtækjum á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum og sérhæfir sig í að aðstoða norræn fyrirtæki í þeirra eignasafni að nálgast bandarískan markað. Sjóðurinn er með skrifstofur í Stokkhólmi í Svíþjóð og Charleston í Suður-Karólínu.
Kaptio var stofnað árið 2009 af Arnari Laufdal Ólafssyni og Ragnari Fjölnissyni. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Hlíðarsmára í Kópavogi. Kaptio opnaði í febrúar söluskriftstofu í London. Fyrir rak fyrirtækið þróunarskrifstofur í Heidelberg í Þýskalandi og í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Fjöldi starfsmanna telur 16 manns. Kaptio Travel, aðalvara Kaptio, hjálpar ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum að halda utan um tilboðsferli og bókanir viðskiptavina sinna á skilvirkari hátt en áður og auðveldar jafnframt samskipti við endursöluaðila og birgja. Hugbúnaðarlausnin er hönnuð sem viðbót við Salesforce.com viðskiptatengslakerfið (CRM) en Salesforce er eitt þekktasta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum.
Í tilkynningunni er haft eftir Arnari Laufdal, framkvæmdastjóra Kaptio, að fjármögnunin sé lykillinn að þeim verkefnum sem fyrirtækið ætlar í á Bretlandsmarkaði á næstunni. „Við erum byrjuð að markaðssetja Kaptio Travel hugbúnaðinn okkar þar, sem er sérlausn hönnuð fyrir ferðaþjónustugeirann. Þetta er einstök vara á sínu sviði og umbyltir verklagi og verkferlum þegar kemur að tilboðum og bókunum. Hagræðingin og þægindin er ótvíræð fyrir seljandann en að sama skapi færi kaupandi ferðaþjónustu persónulegri og meira sérsniðna þjónustu.“
Kaptio er tilnefnt í tveimur flokkum á Nordic Startups Awards í ár, annarsvegar í flokki „Best Exponential Startup“ og hinsvegar í flokki „CTO Hero of the Year“, þar sem Ragnar Fjölnisson er tilnefndur.