Stjórnarandstaðan ætlar að leggja fram sameiginlega tillögu um þingrof og að það verði boðað til kosninga í kjölfarið. Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna vilja að fundað verði sem fyrst með umboðsmanni Alþingis í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins til að fara yfir málið.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, segir við RÚV að þjóðin hafi verið „leynd upplýsingum fyrir síðustu kosningar og það er eðlilegt að spilin séu stokkuð og gefið upp á nýtt.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, segir á Facebook-síðu sinni að það sé trúnaðarbrestur milli almennings í landinu og ráðamanna, „sem hafa valið að deila ekki kjörum með þjóðinni heldur auðmönnum sem geyma eignir sínar í skattaskjólum á sama tíma og Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að útrýma skattaskjólum.“ Ráðlegast væri því að rjúfa þing og efna til kosninga.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði fyrst frá þingrofstillögunni í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 um klukkan hálf sex í kvöld.
Formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna funduðu í Alþingishúsinu í dag klukkan 15. Þeim fundi lauk klukkutíma síðar og nú standa yfir fundir hjá þingflokkum Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Von er á sameiginlegri tilkynningu frá stjórnarandstöðuflokkunum þegar þeim fundum lýkur.
Þingrof hefur fyrst og fremst þau áhrif að boðað er til kosninga og þingstörfum lýkur fljótlega eftir að tilkynningin hefur verið lesin upp eða gefin út. Það er því einungis við sérstakar aðstæður sem þing er rofið, það er ef boða á kosningar á öðrum tíma en í lok hefðbundins kjörtímabils. Þannig var til að mynda farið að á vorþingi 2009 en auk þess eru tíu dæmi í sögu þingsins um að þingrofi hafi verið beitt. Það er forsætisráðherra sem rýfur þing.
Birgitta sagði í samtali við Síðdegisútvarpið að krafa um þingrof væri líkleg. Það gengur lengra en að leggja einungis fram vantrausttillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra likt og rætt hefur verið um meðal stjórnarandstöðunnar til þessa. Ástæða þessarra aðgerða er opinberun á eignarhaldi eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á eignarhaldsfélaginu Wintris, sem er skráð til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum. Félagið er auk þess kröfuhafi í slitabú allra þriggja föllnu bankanna. Samtals nema kröfur þess 523 milljónum króna.
Til viðbótar var upplýst í gær að bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, tengdust aflandsfélögum. Þau eiga þó engar eignir í slíkum í dag en eignir eiginkonu forsætisráðherra í Wintris nema um 1,2 milljarði króna samkvæmt opinberum skattagögnum.
Fréttin hefur verið uppfærð.