Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að breyta þurfi um stefnu stjórnvalda og síður hugarfari fólks, þegar kemur að eiturlyfjafíkn. Hún sé heilsuvandamál en ekki glæpsamlegt athæfi. Þetta kom fram í ræðu sem hann fluti á ráðstefnu um eiturlyfjafíkn og fylgifiska hennar sem haldin er í Atlanta.
„Í of langan tíma höfum við litið á eiturlyfjafíkn í gegnum refsingar í réttarkerfinu. Eina leiðin til að vinna gegn vandamálum sem fylgja eiturlyfjafíkn er að draga úr eftirspurn, og það er helst gert með því að horfa á vandann sem lýðheilsuvandamál en ekki glæpsamlegt athæfi,“ sagði Obama.
Obama kynnti einnig á ráðstefnunni breytingar á stefnu stjórnvalda, sem miða að því að styrkja meðferðarúrræði og hefur 116 milljónum Bandaríkjadala, um 16 milljörðum króna, verið varið til verkefnisins nú þegar.
Obama sagði það vera langtímaverkefni að breyta um stefnu, en hið fyrsta væri þó að viðurkenna eiturlyfjafíknina sem heilsuvandamál. Þá væri mikill sigur unninn.