„En þrátt fyrir allt sem að ofan er sagt, má augljóst vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu.
Ég hef því ákveðið að segja af mér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar, og styð stjórnarandstöðuna eindregið í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki.“
Þetta segir Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og nú fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, í pistli á vef eyjunnar. Vilhjálmur á félag í Lúxemborg sem á umtalsverðar eignir, en í pistlinum segist Vilhjálmur borga af því fullan skatt í samræmi við lög og reglur. Það hefur verið nokkuð til umræðu undanfarna daga, í tengslum við umræðu um tengsl stjórnmálamanna við félög í skattaskjólum.
Vilhjálmur segist vera heppinn að vera sterkefnaður, og tilheyri því hinu ríka 1 prósenti. „Ég stofnaði hugbúnaðarfyrirtæki árið 1983, þá 17 ára gamall, ásamt félaga mínum. Félagið var svo selt á 10. áratug síðustu aldar til erlends hugbúnaðarfyrirtækis fyrir ágætis upphæð í sterlingspundum. Síðan þá hef ég verið vel settur fjárhagslega. Eignir mínar hafa að mestu leyti verið ávaxtaðar innan félags sem ég á í Lúxemborg – eins og er fullkomlega heimilt skv. „fjórfrelsi“ evrópska efnahagssvæðisins. Félagið hefur vitaskuld alltaf verið gefið upp á skattskýrslum og íslensk skattyfirvöld hafa getað farið fram á að sjá ársreikning þess, sem þau hafa a.m.k. einu sinni gert til að sannreyna arðgreiðslu.“
Þá segir Vilhjálmur vera venjulegt „fullskattlagt“ hlutafélag sem greiði 21,84 prósent tekjuskatt í Lúxemborg en íslensk hlutafélög greiði 20 prósent skatt. „En mikilvægt er að benda á að söluhagnaður af hlutabréfum, t.d. ef fjárfesting reynist góð og er seld með hagnaði – sem er meginuppistaðan í ávöxtun félags míns frá upphafi – er ekki tekjuskattskyldur hjá íslenskum hlutafélögum. Það er þannig m.a. til að komast hjá margsköttun. (Slíkur hagnaður er skattskyldur í nokkrum tilvikum, en ekki öllum, í Lúxemborg.) Félagið í Lúxemborg á dótturfélag á Íslandi sem heldur utan um flestar fjárfestingar mínar hér. Það á jafnframt dótturfélag á Kýpur utan um tilteknar hlutabréfaeignir. (Það fyrirkomulag kemur til vegna reglna um skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa í Lúxemborg, og er í samræmi við bindandi álit sem leitað var eftir hjá skattyfirvöldum í Lúxemborg og þau samþykktu.)Hvernig borga ég þá skatta?
Ég borga auðvitað alla skatta og skyldur sem mér ber og hef alltaf gert; í gegn um tíðina töluverðar upphæðir í sjóði íslenska ríkisins, sem ég tel ekki eftir mér.
Ég greiði að sjálfsögðu tekjuskatt af launum sem ég fæ; ég borgaði auðlegðarskatt (sem reiknast af öllu eigin fé félagsins í Lúxemborg) meðan hann var og hét (og sem ég er almennt fylgjandi); og ég borga fjármagnstekjuskatt af öllum arði sem tekinn er út úr félaginu.
Síðastnefndi liðurinn er grundvallaratriði því hann þýðir að 20% af eignum félagsins og ávöxtun þeirra (m.v. núverandi skattprósentu) munu með tíð og tíma renna til íslenska ríkisins, eftir því sem þeim er komið í verð og þær greiddar út í arð – að því gefnu að ég sé íslenskur skattþegn, sem ég er og hyggst vera. Sú staðreynd er algerlega óháð því að félagið er í Lúxemborg,“ segir Vilhjálmur í pistli sínum.
Vilhjálmur er hluthafi í Kjarnanum og situr í stjórn hans.