„Við fjölskyldan höfum verið að skoða þetta alvarlega með jákvæðu hugarfari. Þetta er stór og mikil ákvörðun," segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, í samtali við Kjarnann. Eiríkur íhugar að bjóða sig fram til forseta Íslands. RÚV greindi frá þessu í morgun.
Eiríkur segist hafa rætt undanfarið við fjölskyldu sína og vini og þar sé málið statt.
„Formleg undirskriftarsöfnun er ekki hafin en það er umræða í gangi og þar er málið statt. Við erum að velta þessu alvarlega fyrir okkur, en það er ekki komin nein dagsetning eða svoleiðis," segir hann. „Við eigum mikið af góðu fólki og marga góða að. Þess vegna erum við að ræða við fólk til að heyra hvað því finnst. Þetta er það stórt og mikið embætti og ákvörðunin eftir því. Við ætlum að gefa okkur góðan tíma í að fara yfir þetta."
Eiríkur hefur verið bæjarstjóri á Akureyri síðan árið 2010 og stendur utan flokka.
Eiríkur bætist nú í hóp þeirra fjölmörgu sem annað hvort íhuga að bjóða sig fram til forseta eða hafa nú þegar tilkynnt framboð. Meðal þeirra sem liggja undir feldi eru Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason, Bryndís Hlöðversdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Davíð Þór Jónsson og Linda Pétursdóttir.