Hvorki fréttamenn RÚV, vaktstjórar á fréttastofu né fréttastjórar hafa haft aðgang að þeim gögnum sem þáttur Kastljóss, sem sýndur verður klukkan 18 í sjónvarpinu, er byggður á. Alþjóðlegt birtingabann er á gögnunum til klukkan 18 að íslenskum tíma í kvöld, en þá birta fjölmiðlar víða í Evrópu fréttir sínar samtímis. Aðeins Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna hefur heimild til að gera gögnin opinber.
Þetta er haft eftir Rakel Þorbergsdóttur, fréttastjóra fréttastofu RÚV, á vef þeirra. Þar segir Rakel að þar sem þátturinn hafi verið umfangsmeiri framleiðsla en hefðbundinn Kastljósþáttur hafi hann orðið samvinnuverkefni fréttastofunnar og innlendrar dagskrárdeildar.
„RÚV greiðir Jóhannes Kr. Kristjánssyni sem samsvarar 2-3 mánaða launum fyrir undirbúningsvinnu, myndefni og vinnu Reykjavík Media við þáttinn eða 1,5 milljónir króna. Upphæðin er sambærileg greiðslu á sýningarrétti heimildarmynda,“ segir Rakel í samtali við ruv.is.
Útskýrir þögn sína gagnvart RÚV í nýjum pistli
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur neitað RÚV um viðtal undanfarnar vikur, eða síðan Wintris málið svokallaða kom upp. Á sama tíma hefur Sigmundur verið í löngu forsíðuviðtali við Fréttablaðið, spjallað við Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu og mætt oftar en einu sinni í viðtöl á Bylgjunni. Hann hefur ekki viljað gefa neinar útskýringar á þessu, fyrr en seinnipartinn í dag, þegar hann skrifar pistil á heimasíðu sína sem ber heitið Stóra myndin.
Þar segir Sigmundur:
„Það þykir frétt að konan mín sé kröfuhafi af þeirri gerð sem hefur verið látinn taka á sig tap á meðan enginn spyr um alla hina kröfuhafana, stjórnmálamenn og maka þeirra sem fengu allar sínar kröfur greiddar. Því er meira að segja ruglað saman viljandi að hafa átt inni peninga hjá bönkunum fyrir hrun (rétt eins og innistæðueigendur) og tapað á því og svo vogunarsjóðunum sem keyptu kröfur eftir fall bankanna til að græða á þeim."
Þá útlistar Sigmundur Davíð þrjú atriði:
1. Það hefur komið í ljós að konan mín, sem allir máttu vita að ætti mikla peninga eftir reglubundana fjölmiðlaumfjöllun í mörg ár, hefur greitt af þeim fullan skatt til íslensks samfélags fremur en að nýta tækifæri til að greiða skatta erlendis. Jú, bankinn stofnaði fyrir hana félag og skráði það eins og títt var á sínum tíma í landi sem gerir út á að halda utan um fyrirtæki fyrir fólk. Hins vegar hefur hún aldrei átt peninga í skattaskjóli né verið með aflandsfélag til að greiða skatta erlendis því félagið og eignir þess eru skattaðar á Íslandi.
2. Það hefur líka komið í ljós að stefnan sem ég setti á dagskrá og var sögð óraunhæf eignaupptaka hefur orðið til þess að konan mín hefur þurft að taka á sig enn meira tap (umfram kröfuhafa sem áttu innistæður osfrv).
3. Loks hefur komið í ljós að konan mín hefur forðast að skapa árekstra við stjórnmálastörf mín með því að nýta meðvitað ekki möguleika á að kaupa krónur á afslætti og fjárfesta hér í verðtryggðum hávaxtakrónum eða íslenskum fyrirtækjum. Hún hefði getað hagnast á því en kaus að nýta sér ekki þá möguleika.
Varðandi þögn hans gagnvart RÚV, gerir Sigmundur pistil Sigrúnar Davíðsdóttur um eignir eiginkonu hans að umtalsefni. Hann segir:
„Konan mín sem hefur alltaf viljað leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags, konan sem tapaði á falli bankanna, taldi sjálfsagt að tapa meiru til að tryggja eignir annarra kröfuhafa, þ.e. sparifjáreigenda. Hún tapaði líka á þeirri leið sem ég boðaði til að koma til móts við skuldsett heimili og verja efnahagsstöðugleika og var öflugasti hvatamaður minn í þeim efnum og tapaði svo loks á því að vilja ekki skapa árekstra með því að kaupa krónur á afslætti og fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum eða verðtryggðum íslenskum hávaxtakrónum.
Laun hennar eru þau að RÚV með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar, eftir skrif um bankaútrásina, Icesave og vogunarsjóðina, birtir frétt með mynd af henni undir fyrirsögninni: „Wintris-málið: „Íslands sjálftökumenn“
Svo er ég spurður af hverju ég sé ekki búinn að fara í viðtal á RÚV."
Þá ber að taka fram að Kjarninn hefur ekki fengið svör við fyrirspurnum sínum sem beinst hafa til Jóhannesar Þórs Skúlasonar undanfarið vegna sömu mála, meðal annars um skattamál forsætisráðherrahjónanna.
Fréttin hefur verið uppfærð