Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Gallup var meðaláhorf á Kastljósþátt gærdagsins 49 prósent og uppsafnað áhorf á þáttinn var 58 prósent. Þá var þátturinn með 92 prósent hlutdeild á meðal þeirra sem voru að horfa á sjónvarp á meðan að hann stóð yfir. Inni í þessum tölum eru ekki upplýsingar um þá sem horfðu á Kastljósþáttinn á netinu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var aðalumfjöllunarefni sérstaks Kastljósþáttar um aflandsfélagaeign íslenskra stjórnmálamanna sem sýndur var í gær. Þar gekk hann meðal annars út úr viðtali við sænska sjónvarpsmann sænska ríkissjónvarpsins og Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóra Reykjavík Media, þegar hann var spurður út í aflandsfélagið Wintris. Fjórum dögum eftir að viðtalið var tekið opinberaði eiginkona Sigmundar Davíð að hún ætti erlent félag í stöðuuppfærslu á Facebook. Síðar kom í ljós að Wintris var einnig stór kröfuhafi í bú allra föllnu bankanna og að Sigmundur Davíð var sjálfur eigandi helmingshlutar í félaginu þegar þeir kröfum var lýst. Fjallar var um málið í tugum fjölmiðla út um allan heim í gær. Þeirra á meðal voru BBC, DR, NRK,SVT, The Guardian, Aftenposten, Le Monde og þýska stórblaðið Sueddeutsche Zeitung, sem leiddi umfjöllunina alþjóðlega.
Fleiri voru til umfjöllunar í Kastljósþættinum heldur en Sigmundur Davíð.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, átti 40 milljóna hlut í félagi sem skráð var á Seychelles-eyjum. Farið var yfir skráningu fyrirtækisins Falson og Co. sem Bjarni átti hlut í. Hann hafði áður neitað því að eiga, eða hafa átt, peninga í skattaskjólum. Bjarni sagði félagið hafa verið stofnað í kring um félag sitt og félaga sinna til að kaupa fasteign í Dubai, sem varð þó aldrei af. Hann svaraði fyrir þetta í síðustu viku svo að hann hafi haldið að félagið hafi verið skráð í Luxemborg, en ekki á skattaskjólseyjunum. Félagið var sett í afskráningarferli 2009.
Fjallað var um málefni Ólafar Nordal, innanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, og eiginmanns hennar, Tómasar Sigurðssonar, þáverandi forstjóra Alcoa á Íslandi. Hún er þriðji ráðherrann í gögnunum. Tveimur dögum eftir að hún sigraði í prófkjöri voru Ólöf og Tómas skráðir prófkúruhafar Dooly Securities á Tortólu. Félagið var sett á laggirnar fyrir þau hjón og heimildir þeirra voru til staðar. Hlutabréfin voru handveðsett með samkomulagi í ágúst 2007. Félagið var afskráð 2012 á Tortólu. Ólöf skráði aðild sína að félaginu aldrei í hagsmunaskrá.
Þá var Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, til umfjöllunar vegna vörslusjóðs sem hann á í Panama. Júlíus gaf út yfirlýsingu vegna málsins í vikunni þar sem hann sagði að sjóðurinn hafi verið stofnaður í svissneskum banka til að mynda eftirlaunasjóðinn sinn, en að honum hafi verið ráðlagt að skrá stofnun hans í Panama. Sjóðurinn lúti svipuðu regluverki og sjálfseignastofnun. Aflandsfélagið heitir Silwood Foundation.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, var einnig til umfjöllunar. Sveinbjörg átti hlutdeild í aflandsfélagi sem var í fasteignaþróunarverkefni í Panama. Á heimasíðu Reykjavik Media kemur fram að Sveinbjörg sé skráð fyrir tveimur félögum í umsjá panamísku lögfræðistofunar Mossack Fonseca; 7Callinvest sem skráð er á Tortóla og Ice 1 Corp sem var skráð á Panama. Sjálf hefur hún í störfum sínum í borgarstjórn ítrekað lýst sig andvíga því að Reykjavíkurborg eða fyrirtæki á hennar vegum eigi aðild að fyrirtækjum á aflandseyjum.
Þá var fjallað um málefni Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og eiginmanns hennar, Hallbjarnar Karlssonar verkfræðings. Þorbjörg og Hallbjörn eru skráð fyrir félaginu Ravenna Partners á Tortóla. Allt hlutafé Ravenna var skráð á þau hjónin í ágúst 2005. Félagið var alla tíð eignalaust. Þorbjörg Helga var kjörin í borgarstjórn 2006 og sat sem borgarfulltrúi til ársins 2014.
Enginn þessara kjörnu fulltrúa skráðu félögin sín í hagsmunaskráningu, hvorki á Alþingi né hjá Reykjavíkurborg.