Á áttunda tug erlendra sjónvarpsstöðva hafa óskað eftir því að fá að taka á móti útsendingu RÚV af mótmælum fyrir utan Alþingishúsið sem hefjast formlega klukkan 17 í dag. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá tæknideild RÚV. Ekki er liggur ljóst fyrir hversu margar sjónvarpsstöðvanna muni nýta sér útsendinguna en ljóst er að erlendur áhugi á þeim atburðum sem eru að eiga sér stað á Íslandi er gríðarlegur. Fjölmargir erlendir blaða- og fréttamenn eru staddir hérlendis sem stendur í þeim tilgangi að fjalla um aflandseignir íslenskra ráðamanna og þær afleiðingar sem opinberun þeirra hefur haft.
Mótmælin verða að öllum líkindum afar fjölmenn. Alls hafa yfir tíu þúsund manns boðað komu sína á þau á Facebook-síðu þeirra. Krafan mótmælanna er að boðað verði til kosninga strax.
Sérstakur Kastljósþáttur, sem unnin var í samstarfi við Reykjavik Media, var sýndur í gær klukkan 18. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Gallup var meðaláhorf á Kastljósþátt gærdagsins 49 prósent og uppsafnað áhorf á þáttinn var 58 prósent. Þá var þátturinn með 92 prósent hlutdeild á meðal þeirra sem voru að horfa á sjónvarp á meðan að hann stóð yfir. Inni í þessum tölum eru ekki upplýsingar um þá sem horfðu á Kastljósþáttinn á netinu. Netumferð á vef RÚV tvöfaldaðist í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var aðalumfjöllunarefni sérstaks Kastljósþáttar um aflandsfélagaeign íslenskra stjórnmálamanna sem sýndur var í gær. Þar gekk hann meðal annars út úr viðtali við sænska sjónvarpsmann sænska ríkissjónvarpsins og Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóra Reykjavík Media, þegar hann var spurður út í aflandsfélagið Wintris. Fjórum dögum eftir að viðtalið var tekið opinberaði eiginkona Sigmundar Davíð að hún ætti erlent félag í stöðuuppfærslu á Facebook. Síðar kom í ljós að Wintris var einnig stór kröfuhafi í bú allra föllnu bankanna og að Sigmundur Davíð var sjálfur eigandi helmingshlutar í félaginu þegar þeir kröfum var lýst. Fjallar var um málið í tugum fjölmiðla út um allan heim í gær. Þeirra á meðal voru BBC, DR, NRK,SVT, The Guardian, Aftenposten, Le Monde og þýska stórblaðið Sueddeutsche Zeitung, sem leiddi umfjöllunina alþjóðlega.