Kosið verður til Alþingis í haust en fram að því verður að störfum starfsstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þetta kom fram rétt í þessu á Rás 2. Broddi Broddason fréttamaður kom inn í Síðdegisútvarpið á Rás 2 og greindi frá þessu samkvæmt heimildum fréttastofunnar.
Broddi kom svo aftur inn í kvöldfréttir í útvarpi á RÚV og sagði þá að hann hefði heyrt í öðrum þingmanni stjórnarinnar, sem hefði sagt að það væri allt opið um það hversu lengi þessi starfsstjórn ætti að vera að störfum.
Ekkert hefur komið fram um það hvernig sú ríkisstjórn verður skipuð. Mikið hefur verið um fundahöld í dag og hafa Sigurður Ingi Jóhannsson, Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal meðal annars fundað um framhaldið. Í kjölfar fundar þeirra fóru Sigurður Ingi og Ásmundur Einar á fund Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra.
Búið er að boða þingmenn Framsóknarflokksins á þingflokksfund klukkan 18, en í Síðdegisútvarpinu kom fram í máli Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að ekki hefði verið boðað til fundar hjá Sjálfstæðisflokknum.
Fréttin hefur verið uppfærð.