Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, lýsir því yfir að forysta Sjálfstæðisflokksins njóti skýlaust traust þess til að taka við forsætisráðuneytinu og leiða nýja ríkisstjórn. Auk þess telur ráðið mikilvægt að flokkurinn fari áfram með fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið. Verði þetta ekki niðurstaða þeirrar stjórnarmyndunar sem nú standi yfir eigi að ganga til kosninga „án tafar."
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Vörður hefur sent frá sér.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði í hádeginu að það væri „alveg ljóst að hér tekur við ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar". Hann sagði fullan vilja vera hjá þingflokkum bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til að halda áfram stjórnarsamstarfinu. Ríkisstjórnin hefði góðan þingmeirihluta, stór mál væru framundan og engin ástæða væri til þess að ætla annað en að ríkisstjórnin héldi áfram störfum. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
Ásmundur Einar svaraði ekki beint spurningum um hvernig Sjálfstæðismenn hefðu tekið í hugmyndir um að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, verði næsti forsætisráðherra líkt og þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti í gær. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sagði í gærkvöld að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki samþykkt að Sigurður Ingi verði næsti forsætisráðherra Íslands. Hún sagði ennfremur að sér þyki það persónulega ótækt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem steig til hliðar sem forsætisráðherra í gær, sitji áfram á þingi. Þessum skoðunum hafi hún komið á framfæri á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í gær. Það sé hins vegar lítið sem Sjálstæðisflokkurinn geti gert í þeirri ákvörðun hans. Þetta kom fram í Twitterfærslum Áslaugar Örnu í gærkvöldi.