Ólafur Ólafsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, sem allir hafa hlotið þunga dóma vegna hrunmála tengdum Kaupþingi, losna af Kvíabryggju í dag. Þeir hafa afplánað eitt ár af fjögurra til fimm ára dómi. Færa á þá á áfangaheimilið Vernd og eftir að tíma þeirra þar lýkur munu þeir fara undir rafrænt eftirlit. Þetta kemur fram í frétt á Stundinni.
Þar segir að þessi þróun hafi átt sér stað vegna lagabreytingar sem gekk í gegn í síðasta mánuði um fullnustu refsinga. Samkvæmt þeim breytingum fá fangarnir nú helmingi lengri tíma undir rafrænu eftirliti en áður var leyfilegt. Í frétt Stundarinnar segir: „Frumvarpið breyttist í meðferð allsherjarnefndar, sem lagði til þá breytingu að í stað þess að fangar fengju 2,5 dag í rafrænu eftirliti hvern dæmdan mánuð eru það nú fimm dagar. Þá geta þeir sem dæmdir eru í tólf mánaða óskilorðbundið fangelsi nú verið 60 daga undir rafrænu eftirliti, í stað 30 daga áður. Breytingarnar gera það að verkum að fangar fara nú fyrr en áður í rafrænt eftirlit og losna þar af leiðandi fyrr út úr fangelsi.“
Stundir segir að breytingarnar hafi verið samþykktar í flýti.
Fjölmörg mál gegn Kaupþingsmönnum
Allir mennirnir hlutu dóma í Hæstarétti í Al Thani-málinu í febrúar 2015. Þar var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi. Hann er ekki einn þeirra sem fluttur verður á Vernd í dag, samkvæmt frétt Stundarinnar. Sigurður, sem er fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og Magnús, sem var forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Ólafur Ólafsson, sem var stór eigandi í Kaupþingi fyrir hrun, hlaut einnig fjögurra ára fangelsi. Voru fjórmenningarnir dæmdir fyrir markaðsmisnotkun á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og umboðssvik samkvæmt hegningarlögum. Hæstiréttur kallaði brot mannanna alvarlegustu efnahagsbrot sem „nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot[…]Ákærðu[...]eiga sér engar málsbætur“.
Hreiðar Már, Sigurður og Magnús voru einnig allir ákærðir í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings sem héraðsdómur dæmdi í árið 2015. Þar var Hreiðar Már dæmdur sekur en hlaut ekki viðbótarrefsingu. Sigurður var einnig dæmdur sekur og einu ári var bætt við afplánun hans. Tveimur ákæruliðum gegn Magnúsi var hins vegar vísað frá og hann sýknaður í málinu að öðru leyti. Niðurstöðunni hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Þá voru bæði Hreiðar Már og Magnús dæmdir sekir í héraðsdómi í október 2015 í svokölluðu Marple-máli. Hreiðar Már hlaut þá sex mánaða aukarefsingu en Magnús var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Skúli Þorvaldsson var einnig dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð af ákæru í málinu. Hreiðar Már og Guðný Arna voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu.
Auk þess eru fleiri mál á hendur mönnunum enn í rannsókn.
Hreiðar Már, Sigurður og Magnús voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar síðastliðnum sýknaðir í svokölluðu CLN-máli. Þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað.
Þessi frétt verður uppfærð.