Lilja Dögg Alfreðsdóttir, nýr utanríkisráðherra Íslands, segir að hún sé alveg á sömu línu og Framsóknarflokkurinn í utanríkismálum. Hún hafi vissulega verið á meðal forystumanna í Evrópusamtökunum fyrir um áratug síðan en staðan í Evrópu og innan sambandsins hafi verið önnur þá. Hún styðji fyllilega þá ákvörðun að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka.
Lilja sagði við fjölmiðla að henni hafi verið boðið ráðherrastaðan fyrir tæpum sólarhring síðan. Hún tekur við starfinu af mikilli auðmýkt og segir að hún finni til ábyrgðar vegna þess. Lilja er þegar byrjuð að setja sig í samband við starfsmenn utanríkisráðuneytisins en lyklaskipti verða á morgun.
Lilja verður utanþingsráðherra, enda situr hún ekki á Alþingi. Hún segir tímann muna leiða það í ljós hvort hún muni taka frekari þátt í stjórnmálum og hvort hún bjóði sig fram í fyrirhuguðum kosningum í haust. Lilja sagði að hún myndi sakna Sigmundar Davíðs úr ríkisstjórninni.