Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er hættur sem forsætisráðherra. Hann hefur yfirgefið síðasta ríkisráðsfund sinnar ríkisstjórnar og í kjölfarið verður fyrsti ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar. Sigmundur Davíð sagði myndun nýju ríkisstjórnarinnar mikið fagnaðarefni. Hann væri virkilega stoltur af þeim verkum sem ríkisstjórnin hafi unnið til þessa.
Aðspurður hvort að þessi niðurstaða væri persónulegt áfall þá svaraði Sigmundur Davíð því ekki beint. Hann sagði þó að hann hefði viljað fylgja þeim verkefnum sem ríkisstjórnin ætti eftir að klára til enda. Aðalatriðið væri þó að verkefnin verði kláruð, ekki að hann klári þau.
Hann sagði sitt næsta verkefni vera það að mæta í þingið á morgun og verja hina nýju ríkisstjórn vantrausttillögu. Í framhaldi af því ætlar hann í frí með eiginkonu sinni og dóttur. Sigmundur Davíð sagði að hann ætlaði líka að setja sig í samband við það fjölmarga fólk um allt land sem hafi sent honum baráttukveðjur og hlýja strauma undanfarna daga. Hann ætli að ræða við það um stöðuna í samfélaginu. Því virðist lítið benda til þess að Sigmundur Davíð ætli að kveðja stjórnmálin í nánustu framtíð.
Fráfarandi forsætisráðherra var einnig spurður hvort að hann myndi verða harður aftursætisbílstjóri í þeirri ríkisstjórn sem nú taki við völdum, enda verður hann áfram þingmaður og formaður Framsóknarflokksins. Hann sagði Sigurð Inga vel treystandi til að stýra málum en ef hann gæti aðstoðað með nokkrum hætti væri hann tilbúinn til þess.