Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að sú umsýsla að Íslendingar skyldu áfram vista eigur sínar á aflandseyjum eftir hrunið sé „vissulega ekki ólögleg en óeðlileg er hún.[...]Ljóst er að það er löglegt. Þannig er þetta fyrst og síðast siðferðislegt álitaefni. Mitt fyrsta verk í forsætisráðuneytinu á föstudag var að láta kanna hvort við gætum bannað Íslendingum að vista peninga í lágskattaríkjum. Fyrstu svör sérfræðinga eru þau að vegna m.a. jafnræðisreglu EES-samningsins sé það ekki hægt."
Á fimmtudag í síðustu viku sagði hann hins vegar úr ræðustóli Alþingis að ekkert væri að því að eiga eignir á lágskattasvæðum ef þeir sem slíkar eigi greiði skatta af þeim eignum. Það væri löglegt á Íslandi og alþjóðlega. Það sé hins vegar verulega mikið að því þegar menn noti slík félög til að komast hjá greiðslu skatta og til að fela fé. Hann hvatti alla þá sem „orðið hafa fyrir því“ að fela peninga eða svíkja undan sköttum að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Í viðtalinu við Morgunblaðið í dag segir Sigurður Ingi að nú sé brýnast að byggja að nýju traust milli stjórnmálamanna og þjóðar. Eftir því sé kallað. „Verkefnið er vandasamt en ég mæti því af fullri auðmýkt." Forsætisráðherrann segir að ríkisstjórn hans muni kalla fjölmarga til samráðs við sig á næstu vikum til að leysa stóru málin sem framundan eru. Meðal þeirra sem kallaðir verða til eru fulltrúar stjórnarandstöðu. Þetta sé liður í því að endurheimta traust milli almennings og stjórnmálamanna.
Traust á stjórnmálamenn og stofnanir stjórnmálanna hrapaði í kjölfar Kastljóss-þáttar fyrir átta dögum þar sem aflandseign íslenskra ráðamanna var opinberuð. Í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði í byrjun síðustu viku var spurt hvort umfjöllunin hefði dregið úr trausti á nokkrum ráðherrum eða stofnunum. 78 prósent sögðu að hún hefði dregið úr trausti sínu gagnvart Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, og 67 prósent að hún hefði dregið úr trausti sínu á Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. 62 prósent treystu Ólöfu Nordal innanríkisráðherra síður eftir þáttinn og 70 prósent misstu traust gagnvart ríkisstjórninni. Traust aðspurðra til Alþingis dróst saman hjá 63 prósent landsmanna og traust til stjórnmála almennt dróst saman um 67 prósent. Fylgi stjórnarflokkanna hríðféll einnig í flestum könnunum sem birtar voru í síðustu viku og stuðningur við ríkisstjórnina fór niður í 26 prósent.
Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu engu að síður nýja ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Inga í lok síðustu viku, en lofuðu kosningum í haust. Enn á eftir að nefna dagsetningu í þeim efnum.
Sigurður Ingi segir við Morgunblaðið að ef til vill hafi síðustu ríkisstjórnum mistekist að ná samtali við þjóðina. „Einhverra hluta vegna höfum við ekki fundið rétta tóninn. Ríkisstjórn mín mun því á næstunni kalla stjórnarandstöðuna og fleiri til samráðs um ýmis mál sem þarf að leysa, svo sem afnám hafta og húsnæðismálin, svo ég nefni nokkur stór verkefnin sem þarf að ljúka, áður en kosið verður í haust. Að nokkrir mánuðir líði uns kosið sé er ágætur tími. Við þurfum að gefa lýðræðinu svigrúm til að undirbúa sig, bæði nýjum stjórnmálahreyfingum og þeim sem fyrir eru."