Kjarninn miðlar ehf., félag sem á og rekur Kjarnann, hefur lokið við sölu á hlutafé sem félagið átti sjálft. Auk þess hefur hlutafé verið aukið lítillega. Hjónin Gummi Hafsteinsson og Edda Hafsteinsdóttir bætast nú við hluthafahópinn. Aðkoma þeirra er liður í áframhaldandi sókn Kjarnans á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans, verður stærsti hluthafi félagsins að þessum breytingum loknum. Tilkynning um breytingu á eigendahópi Kjarnans hefur verið send Fjölmiðlanefnd líkt og lög gera ráð fyrir.
Samhliða er það Kjarnanum sönn ánægja að tilkynna um stofnun Kjarnasjóðsins, fyrsta íslenska rannsóknarblaðamennskusjóðsins. Honum er ætlað að styrkja stór og metnaðarfull verkefni á sviði rannsóknarblaðamennsku á Íslandi og um leið efla hana til muna. Með sjóðnum er ætlunin að gefa blaðamönnum tækifæri til að helga sig alfarið stórum og flóknum verkefnum í dágóðan tíma. Sjóðurinn mun úthluta allt að fimm milljónum króna árlega og getur hver einstakur styrkur numið allt að 500 þúsund krónum.
Hægt er að nálgast allar upplýsingar um Kjarnasjóðinn hér.
Öllum frjálst að sækja um í Kjarnasjóðinn
Öllum verður frjálst að sækja um styrki í sjóðinn. Þriggja manna sjálfstæð úthlutunarnefnd mun sjá um að velja úr þau verkefni sem hljóta styrki. Formaður hennar verður Birna Anna Björnsdóttir, hluthafi í Kjarnanum og einn eiganda ráðgjafarfyrirtækisins Suðvesturs, en auk hennar sitja í nefndinni Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, aðjúnkt við Haskóla Íslands og umsjónarmaður meistarnáms í blaða- og fréttamennsku við skólann. Öllum er frjálst að leggja sjóðnum til fjármagn og er áhugasömum bent á að hafa samband á netfangið sjodur@kjarninn.is.
Afrakstur þeirra verkefna sem hljóta styrki verður birtur á Kjarnanum, en birting efnis er jafnframt heimil annars staðar sé aðkomu sjóðsins getið.
Birna Anna Björnsdóttir, formaður úthlutunarnefndar Kjarnasjóðsins, segir það vera sanna ánægju og spennandi að fara af stað með sjóðinn. „Með honum er Kjarninn að sýna í verki þá meginhugsjón sína að efla óháða rannsóknarblaðamennsku á Íslandi. Öllum verður frjálst að sækja um í sjóðinn, bæði blaða- og fréttafólki sem starfar á öðrum fjölmiðlum sem og þeim sem starfa við blaðamennsku frílans. Við hvetjum fólk á öllum aldri, bæði konur og karla, til að sækja um. Ég er sannfærð um að út úr þessu munu koma flott og mikilvæg verk. Við hlökkum mikið til að byrja að fá inn umsóknir og vonumst til að geta sett fyrstu verkefnin í gang sem allra fyrst.“
Starfar hjá Google
Kjarninn er íslenskt fjölmiðlafyrirtæki sem hóf starfsemi í júní 2013. Í dag heldur Kjarninn úti fréttavefsíðunni Kjarninn.is, umfangsmiklu hlaðvarpi, daglegu fréttabréfi og ítarlegum fréttabréfum á ensku um það helsta sem á sér stað á Íslandi. Á ritstjórn Kjarnans starfa fimm blaðamenn auk þess sem á þriðja tug pistlahöfunda, fréttaskýrenda og hlaðvarpsframleiðenda vinna efni fyrir miðilinn.
Edda og Gummi, sem nú bætast í eigendahópinn, eru mikið áhugafólk um málefnalega og gagnrýna umræðu um mikilvægustu mál þjóðfélagsins. Þau bjuggu lengi vel í Kaliforníu, og tóku þar virkan þátt í starfsemi sem snéri að því að bæta hag fólks og þá sérstaklega allt sem við kom réttindum kvenna og barna um allan heim. Sem dæmi voru þau félagar í SV2 (Silicon Valley Social Venture Fund) og GLI (Girls Learn International). Edda og Gummi, ásamt þremur dætrum þeirra, eru nýflutt heim til Íslands. Edda er lyfjafræðingur að mennt, og starfar við ljósmyndun. Gummi hefur farið víða í tæknigeiranum, og var meðal annars yfir þróun á Google Maps fyrir farsíma og Google Voice Search, og gegndi einnig stöðu Vice President of Product hjá Siri sem var síðar keypt af Apple. Hann starfar nú hjá Google eftir sölu á fyrirtæki sínu þangað, og ferðast reglulega á milli Kaliforníu og Íslands.
Hjálmar Gíslason, stjórnformaður Kjarnans, segist einstaklega stoltur af þeim árangri sem Kjarninn hefur náð fram til þessa og sinni þátttöku í þeirri vegferð. „Þetta litla, en öfluga teymi hefur komið ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma. Miðillinn hefur markað sér skýra stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði og sýnt og sannað að hann hefur áhrif og á hann hlustað. Nú ætlum við að byggja enn frekar á þessum árangri, bæta í og tryggja Kjarnann í sessi til framtíðar."
Stjórn Kjarnans skipa Hjálmar Gíslason stjórnarformaður, Birna Anna Björnsdóttir, Guðrún Inga Ingólfsdóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson.
Eigendur Kjarnans að lokinni hlutafjársölu og -aukningu eru:
- HG80 ehf. (í eigu Hjálmars Gíslasonar) 16,55%
- Miðeind ehf. (í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar) 15,98%
- Magnús Halldórsson 13,79%
- Þórður Snær Júlíusson 12,20%
- Birna Anna Björnsdóttir 9,39%
- Hjalti Harðarson 9,25%
- Milo ehf. (Í eigu Gumma Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur) 5,69%
- Fagriskógur ehf. (í eigu Stefán Hrafnkelssonar) 5,69%
- Ágúst Ólafur Ágústsson 5,69%
- Birgir Þór Harðarson 2,9%
- Jónas Reynir Gunnarsson 2,9%