Sturla H. Jónsson bílstjóri ætlar að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hann hefur nú þegar safnað undirskriftum þrjú þúsund meðmælenda víða um land, er fram kemur í tilkynningu frá honum.
Þar segir: „Allt frá árinu 2008 hefur Sturla verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Mörgum er minnistæð barátta hans og félaga hans það ár fyrir lækkuðu eldsneytisverði sem hafði áhrif á lánskjaravísitölu heimilanna í landinu. Árið eftir hélt Sturla til starfa í Noregi. Þegar hann sneri aftur árið 2010 sá hann að hann gæti ekki látið kjör fólks í landinu afskiptalaus. Hann hóf þá baráttu sem enn sér ekki fyrir endann á sem snýr að lögmæti lána, hegðan lánastofnana gagnvart viðskiptavinum sínum með fulltingi sýslumanna, úrræðaleysis og afskiptaleysis annarra stjórnvalda gagnvart þeim."
Sturla er fæddur í Reykjavík 4.nóvember 1966. Hann er kvæntur Aldísi Ernu Helgadóttur og eiga þau þrjá stráka á aldrinum 16 til 26 ára.