Lífeyrissjóðir landsins, sem eiga með beinum hætti 38 prósent af skráðum félögum í Kauphöll Íslands og enn stærri eignarhlut þegar óbeinn eignarhlutur þeirra er talinn með, ættu að setja á laggirnar sjálfstætt kjararáð til að ákvarða launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækja í þeirra eigu. Þannig kæmu þeir í veg fyrir of háar launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækjanna og myndu láta reyna á hótanir þeirra um að fara til annarra landa til að starfa fái þeir ekki þau laun og kaupauka sem þeir krefjast. Þar sé nánast ekki nein eftirspurn eftir þeim. Þetta segir Bolli Héðinsson, hagfræðingur og formaður Samtaka sparifjáreigenda, í Fréttablaðinu í dag. Með þessu geti lífeyrissjóðirnir notfært sér það afl sem þeir hafi sameiginlega til að reyna að hindra launaskrið.
Laun forstjóra Kauphallarfélaganna hækkuðu að meðaltali um 13,3 prósent á milli áranna 2015 og 2016 en meðalárshækkun launavísitölu Hagstofu Íslands var 7,2 prósent árið 2015. Samkvæmt hugmynd Bolla yrði kjararáðið sjálfstæð nefnd sem úrskurðaði um laun stjórnenda fyrirtækja í eigu lífeyrissjóða. Það myndi setja saman launatöflur fyrir stjórnendur og skipa þeim á viðeigandi stað í launatöflunum. Bolli segist ekki hafa neinar áhyggjur af því að íslenskir stjórnendur muni leita úr landi í kjölfar slíkra breytinga. „Ég veit að það er engin eftirspurn eftir íslenskum stjórnendum í útlöndum, nema manni og manni,“ segir hann.
Í Fréttablaðinu er einnig rætt við Hauk Hafsteinsson, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, stærsta lífeyrissjóðs landsins. Hann segir þar að hugmyndin sé ný og skoðunarverð. Hann hafi hins vegar efasemdir um að markaðurinn og samkeppnisyfirvöld muni heimila svo víðtækt samstarf lífeyrissjóðanna í landinu.