Ríkisskattstjóri hefur ekki upplýsingar um það hversu margir aðilar, og þar af hversu margir einstaklingar, hafa skilað CFC eyðublaði með skattframtölum sínum frá því að löggjöfin þar um tók gildi árið 2010. Þetta kemur fram í svari Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra við fyrirspurn Kjarnans.
Skúli Eggert segir að CFC-eyðublaðið sé fyrst og fremst verkfæri til að leiða fram ákveðnar upplýsingar, það er „skattstofna þar sem félag á lágskattasvæði er skattlagt hjá eigandanum eins og ekkert félag væri fyrir hendi. Skattlagning verður þá hin sama og einstaklingur í atvinnurekstri með þeim reglum sem um slíka skattlagningu gilda.“
Ástæða þess að ríkisskattstjóri er ekki með þessar upplýsingar er að í mörgum tilvikum er það svo að pdf-skjöl fylgi með skattframtali án þess að þau séu tölvutekin. „Í einhverjum tilvikum fylgir blaðið ekki, en réttir skattstofnar eru leiddir fram með öðrum hætti. Þá er það nægjanlegt,“ segir ríkisskattstjóri.
Engin íslensk kennitala
CFC löggjöfin tók gildi í byrjun árs 2010. CFC stendur fyrir Controlled Foreign Corporation, erlend fyrirtæki, félög eða sjóði í lágskattaríkjum í eigu, eða undir stjórn íslensks eiganda, hvort sem sá eigandi er félag eða einstaklingur. Lögin kveða meðal annars á um að greiða skuli tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags sem íslenskur skattaðili á en er í lágskattaríki. Íslendingar sem eiga félög á lágskattasvæðum eiga að skila sérstöku framtali með skattframtalinu sínu vegna þessa, skýrslu ásamt greinargerð þar sem meðal annars eru sundurliðaðar tekjur, skattalegar leiðréttingar, arðsúthlutun og útreikningur á hlutdeild í hagnaði eða tapi á grundvelli ársreikninga, sem eiga að fylgja. Ef það er ekki gert brýtur það í bága við lög um tekjuskatt.
Eins og komið hefur fram í fréttum hafa fjölmiðlar ítrekað leitað svara við því hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, hafi talið fram félagið Wintris í samræmi við CFC reglurnar. Kjarninn hefur ítrekað leitað svara við þessu frá því skömmu eftir að Anna Sigurlaug greindi frá tilvist fyrirtækisins, en fyrirspurnum hefur ekki verið svarað. Fleiri fjölmiðlar hafa einnig spurst fyrir um málið. Í viðtali við Morgunblaðið um síðustu helgi sagði Sigmundur Davíð að CFC löggjöfin taki bara til rekstrarfélaga. Félagið Wintris hafi hins vegar ekki verið rekstrarfélag.
Þetta er ekki rétt samkvæmt upplýsingunum sem fram koma um CFC félög á vef ríkisskattstjóra. Þar kemur fram að það eigi að skila CFC eyðublaði ef:
- Félagið, sjóðurinn eða stofnunin er staðsett í lágskattaríki. Þau ríki teljast lágskattaríki ef sá tekjuskattur sem lagður er á lögaðilann ytra er lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á lögaðilann hefði hann verið heimilisfastur á Íslandi og
- Íslenskir skattaðilar, einn eða fleiri saman, eiga beint eða óbeint minnst helming í CFC-félaginu eða stjórnunarleg yfirráð þeirra hafa verið til staðar innan tekjuárs. Ekki er litið til eignarhalds hvers einstaks eiganda við ákvörðun þess hvort skilyrði telst uppfyllt, heldur sameiginlegs eignarhalds eða stjórnunarlegra yfirráða allra íslenskra skattaðila í hinu erlenda félagi.
Engin önnur skilyrði eru tiltekin. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri vill ekki tjá sig um einstaka ummæli, en forveri hans, Indriði H. Þorláksson, hefur sagt að ummæli eins og Sigmundar Davíðs séu jafnvel tilraun til blekkingar.
„Eignarhaldsfélag eða hvað annað félag sem starfar í þeim tilgangi að sýsla með eignir og afla tekna fyrir eiganda sinn er með atvinnustarfsemi skv. þeim lögum sem hér skipta máli, þ.e. tekjuskattslaganna. Hvort sem tekjurnar eru afrakstur af sölu á vöru eða þjónustu, þóknanir, arður, tekjur af eignasölu, þ.m.t. fasteignum eða vextir af bankainnistæðum, skuldabréfum o.s.fr. eru það skattskyldar tekjur af atvinnurekstri í skilningi þeirra laga. Það skiptir og engu hvort félagið hefur starfsmenn á sínum snærum eða kaupi þjónustu af öðrum,“ skrifaði hann í grein í Kjarnanum fyrir skömmu.
Einnig kemur fram á vef ríkisskattstjóra að CFC félög eiga að hafa íslenska kennitölu til þess að skila tilskildum gögnum til ríkisskattstjóra. „Án íslenskrar kennitölu er ekki hægt að skila tilskildum gögnum til ríkisskattstjóra.“
Félagið Wintris er ekki með íslenska kennitölu.