Um 50 prósent landsmanna vilja að nýr Landsspítali rísi á Vífilsstöðum í Garðabæ. 39,6 prósent vilja að hann rísi við Hringbraut, þar sem spítalinn stendur nú. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup vann fyrir Viðskiptablaðið og birt er í því í dag. Aðrir möguleikar, eins og Keldnaholt eða Fossvogur, eru mun óvinsælli og 7,5 prósent vilja að spítalinn rísi á öðrum stað en ofangreindum fjórum. Unnið er að því að reisa nýja spítalann við Hringbraut.
Ekki er mikill munur á afstöðu fólks til þess hvort nýr spítali rísi við Hringbraut eða á Vífilsstöðum þegar hún er skoðuð út frá aldri, tekjum kyni eða menntum. Eldra fólk er þó eilítið hlynntara uppbyggingu á Vífilsstöðum en stuðingur við uppbyggingu við Hringbraut er meiri hjá yngsta aldurshópnum.
Mikill munur er hins vegar á afstöðu fólks þegar hún er greind eftir því hvaða stjórnmálaflokka það myndi kjósa. Þar kemur í ljós að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks (62 prósent) og Framsóknarflokks (73 prósent) eru þeir sem vilja helst sjá nýjan spítala rísa á Vífilsstöðum. Mestur stuðningur við Hringbrautarlausnina er hinsvegar hjá stuðningsmönnum Samfylkingar (75 prósent) og Vinstri grænna (64 prósent). Píratar eru nokkuð skiptir í afstöðu sinni. Um 45 prósent þeirra vilja Vífilsstaði en 45 prósent vilja Hringbraut.
Spurt var „Hvar vilt þú að nýr Landspítali rísi“ og voru svarmöguleikarnir „Á Vífilsstöðum“ og „Við Hringbraut“ birtir svarendum í tilviljunarkenndri röð. Alls voru svarendur 867 talsins og af þeim tóku 669 afstöðu.
Alveg öruggt að spítalinn verður við Hringbraut
Sitjandi ríkisstjórn vinnur að uppbyggingu nýs Landsspítala við Hringbraut. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, varpaði því sprengju inn í stjórnarstarf ríkisstjórnar sinnar í síðasta mánuði þegar hann opinberaði þann vilja sinn í gær að byggja nýjan Landsspítala við Vífilsstaði. Sigmundur skrifaði þá grein á vefsíðu sína þar sem hann lýsti yfir þeim vilja sínum. Í Morgunblaðinu daginn áður hafði verið rætt við bæjarstjórann í Garðabæ um möguleikann á uppbyggingu Landspítala við Vífilsstaði. Bæjaryfirvöld þar segjast reiðubúin í samstarf um byggingu nýs spítala þar, og hægt sé að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt.
Sigmundur Davíð ræddi hvorki við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra né stjórnendur Landsspítalans áður en að hann varpaði fram þessari hugmynd sinni. Kristján Þór sagði í kjölfarið í viðtali við Rás 2 að vinnubrögð Framsóknarflokksins vegna uppbyggingu nýs Landsspítala væru ekki boðleg. Alveg öruggt væri að Landspítalinn muni verða við Hringbraut, þar sem uppbygging hans stendur nú yfir. Alþingi hafi tekið þá ákvörðun með lögum árið 2010, sem síðan var aftur staðfest í lögum árið 2013.
Í viðtalinu sagði heilbrigðisráðherra að hann hefði fyrst heyrt af hugmyndum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um staðsetningu Landsspítalans á Vífilstöðum í Garðabæ á föstudag í fjölmiðlum. „Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins heyrði það sömuleiðis í fyrsta skipti á föstudaginn. Þetta eru ekki vinnubrögð til fyrirmyndar bara svo það sé sagt það er einfaldlega mín skoðun.“
Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra í síðustu viku vegna aflandsfélagahneykslisins og ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við.