Ný opinber útgáfa Vivaldi-vefvafrans er komin út. Töluvert hefur verið fjallað um þennan nýja vafra í erlendum miðlum. Til dæmis var fréttin af vefvafranum valin sjöunda stærsta tæknifrétt í Evrópu síðustu viku á vefnum VentureBeat. Einnig hefur verið fjallað um vafrann og stofnanda fyrirtækisins, Jón von Tetzchner, í The Guardian, Forbes og Fortune.
Í fréttatilkynningu sem fyrirtækið Vivaldi sendi frá sér þann 8. apríl segir: „Það sem gerir Vivaldi sérstakan og öðruvísi, er að hann er byggður á nútíma veftækni. Við notum JavaScript og React til að smíða notendaviðmótið með hjálp frá Node.js og löngum lista af NPM einingum. Vivaldi er því byggður fyrir vefinn með vefnum.
„Okkar markmið er að endurvekja öflugan vafra,“ segir Jon von Tetzchner framkvæmdastjóri Vivaldi. „Þannig er Vivaldi 1.0, bæði endurlit og framtíðarsýn. Hann er hvort tveggja í senn nútímalegur og klassískur, hannaður til að hjálpa notendum að fullnýta þann tíma sem þeir eyða með vafranum sínum.“
„Milljónir notenda hafa nú þegar látið í ljós ósk um nýjan vafra með fjölbreyttari eiginleikum. Öll okkar þróunarvinna er unnin í þágu notenda og fyrir þá. Engir fjárfestar eru að reyna að stýra vinnuferlum hjá okkur eða eru með þrýsting á okkur. Við höfum ekki sett upp neinar útgönguleiðir því við erum komin til að vera. Okkar eina hugsjón er að færa fólki vafra sem það vill nota og við getum verið stolt af að kalla Vivaldi.“
Kjarninn hefur áður fjallað um fyrirtækið Vivaldi og stofnanda þess, Jón von Tetzchner. Fyrir flesta netnotendur er vafri bara vafri og erfitt að sjá hvað einn vafri getur boðið upp á fram yfir annan. Jón sagði við Kjarnann að Vivaldi sé vafri fyrir notendur sem krefjast meira. „Venjulegir notendur sem eru bara að fara á Facebook og skoða nokkrar netsíður hafa enga þörf fyrir það sem við erum að byggja. En ef þú ert notandi sem ert mikið á netinu, til dæmis með mjög marga fána (e. tabs) opna, eða byrjar með marga fána, þá bjóðum við upp á svokallað „stacking“ sem þýðir að þú getur geymt marga fána undir einum. Þá er einfaldara að finna hluti. Við fundum upp möguleikann að hafa síður hlið við hlið á sama skjánum. Og ýmislegt annað. Þetta er fyrir stórnotendur á netinu.“
Hægt er að nálgast vafrann á heimasíðu Vivaldi.