Hvorki Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari né Davíð Þór Jónsson héraðsprestur ætla að bjóða sig fram til forseta Íslands. Bæði eru þau búin að liggja undir feldinum í nokkrar vikur.
Bryndís segir í samtali við RÚV að hún sé þakklát góðu fólki sem skorað hafi á hana í framboð en að hana langi að halda áfram vinnu sinni sem ríkissáttasemjari. Bryndís tók við embættinu síðasta vor.
Davíð Þór sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist hafa tekið þá ákvörðun að bjóða sig ekki fram. Hann hafi látið tilleiðast að íhuga framboð, en eftir að Andri Snær Magnason hafi boðið sig fram hafi Davíð Þór ákveðið að þar væri kominn frambjóðandi með svipuð grunngildi og hann sjálfur. Framboð sitt mundi því jafnvel ganga gegn markmiðum sínum með því að dreifa atkvæðum á milli þeirra tveggja.
Andri Snær bauð sig formlega fram á mánudag og búist er við því að Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skríði undan feldinum eftir helgi. Davíð Oddsson hefur líka verið orðaður við framboð.