Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur boðað til blaðamannafundar í dag klukkan 16:15. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu.
Örnólfur Thorsson forsetaritari vildi í samtali við Kjarnann ekki segja frá efni fundarins, en sagði að það myndi koma fram á fundinum sjálfum.
Ólafur Ragnar tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann hygðist hætta sem forseti Íslands í sumar.
Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs, fór af landi brott í gær.
Fyrir fjórum árum síðan hafði Ólafur Ragnar einnig greint frá því að hann hygðist hætta í embætti forseta Íslands. Hann greindi hins vegar frá því í mars 2012 að hann hefði endurskoðað þá ákvörðun. „Síðan er höfðað með mjög skýrum hætti til mín um það að ég geti nánast ekki leyft mér að fara af vettvangi við þessar aðstæður. Það er meginástæðan fyrir því að ég hefi ákveðið að breyta þessari ákvörðun,“ sagði hann þá. Það væri umrót í flokkakerfi og í þjóðmálum og átök um fullveldi Íslands.