Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á Bessastöðum í gær að hann væri ekki kominn svo langt að fara að velta kosningabaráttu fyrir sér. Hann útilokar ekki að hætta áður en að kjörtímabilið verður liðið, fari svo að hann verði endurkjörinn í sjötta sinn. Ólafur Ragnar hafði þá tilkynnt að hann ætlaði að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands á ný, en hann hefur gegnt embættinu frá árinu 1996. Í áramótaávarpi sínu hafði Ólafur Ragnar tilkynnt að hann myndi ekki bjóða fram aftur. Slíka yfirlýsingu hafði hann einnig gefið út árið 2012. Nú, líkt og þá, snérist honum hugur og vísaði í þetta sinn í að vantraust og óöryggi hái þjóðinni og því sé krafa uppi um að hann standi áfram vaktina með þjóðinni.
Ólafur Ragnar sagði að síðast þegar hann fór í framboð hafi hann borgað sjálfur verulegan hluta þess kostnaðar sem af því hlaust, en þá ákvað hann að fara fram í byrjun mars 2012. Ólafur Ragnar segir nú að hann muni ekki heyja dýra kosningabaráttu. Aðspurður um hvort hann ætli að sitja út kjörtímabilið nái hann kjöri sagði forsetinn að hann hefði ekki tekið neinar ákvarðanir í þeim efnum. „Ef málin skipast þannig á næstu misserum eða árum að allt verður komið í ró og spekt og hugur þjóðarinnar er þannig stemmdur að fólk sé tilbúið að ganga til forsetakosninga fyrr en ella þá mun ekki standa á mér."