Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fór í skyndi til Sádi-Arabíu í vikunni til að eiga fundi með ráðamönnum og ráðgjöfum konungsríkisins, með það að markaði að draga úr spennu milli ríkjanna tveggja.
Sádi-Arabar eru sagðir hafa hótað bandarískum stjórnvöldum því að skyndiselja bandarískar eignir, þar á meðal ríkisskuldabréf og eignarhluti í stórum bandarískum fyrirtækjum, fyrir um 750 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 100 þúsund milljörðum króna. Ástæðan er sú, að bandarísk stjórnvöld eru að skoða að fella niður friðhelgi ráðamanna Sádi-Arabíu fyrir bandarískum dómstólum, en hún byggir á löggjöf frá árinu 1976.
Lögin eru meðal lykilforsendna fyrir sterku og víðtæku efnahagspólitísku sambandi Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu um áratuga skeið.
Ástæðan fyrir því að Bandaríkin íhuga nú að fella niður friðhelgina, eru upplýsingar sem fram hafa komið um tengsl árásanna 11. september 2001 á tvíburaturnanna í New York, sem urðu rúmlega þrjú þúsund manns að bana. Aðstandendur þeirra sem létust hafa skipulega þrýst á yfirvöld um að birta öll gögn um rannsókn á atburðunum, en hluti þeirra hefur aldrei verið birtur opinberlega.
Í Wall Street Journal í dag, kemur fram að Obama freisti þess að róa Sádi-Araba, og einnig miðla málum í hættulega stirðum samskiptum Sádi-Araba við ráðamenn í Íran.
Obama er sagður freista þess að styrkja sambandið við Sádi-Arabíu, og um leið reyna að miðla málum þegar kemur að Íran, sem nú er byrjaða að byggja upp útflutningsviðskipti eftir að efnahagsþvinganir voru aflagðar. Mikið sé í húfi, enda geti frekari ófriður í Miðausturlöndum grafið undan tilraunum til að stilla til friðar í heimshlutanum, sem einkennst hefur af ófriði, stríðsátökum og pólitískum glundroða undanfarin ár.
Sádi-Arabar eru auk þess sagðir vera komnir í varnarstellingar efnahagslega, eftir að lánshæfiseinkunn ríkisins var lækkuð. Versnandi staða er alfarið rakin til mikillar verðlækkunar á olíu. Tunnan af hráolíu hefur lækkað úr 110 Bandaríkjadölum niður í rúmlega 40 dali á einu og hálfu ári. Olíuframleiðsluríki náðu ekki saman um aðgerðir til að draga úr framleiðslu á fundi OPEC ríkja í Doha um síðustu helgi. Það eru einkum Íranir sem eru sagðir hafa staðið í vegi fyrir slíkum aðgerðum, sem hefðu væntanlega leitt til minna framboðs og þar með hærra verðs.