Alls eru á áttunda tug mála á þingmálaskrá sem Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokkanna á fundi í dag. Samkvæmt breyttri starfsáætlun verður þing í ágúst og eftir atvikum fram í september, sem þýðir að Alþingi mun starfa í sumar. Gangi áætlun um framgang málanna eftir er stefnt að því að þingkosningar geti farið fram seinni hlutann í október. Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem sat fundinn.
Mörg málanna eru framkvæmdarmál og eru þegar í vinnslu í þinginu. Stóru málin sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að koma í gegn fyrir kosningar eru meðal annars lagabreytingar til að geta hrint losun hafta í framkvæmd, húsnæðismálafrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra og breytingar á greiðsluþátttöku innan heilbrigðiskerfisins. Þá var einnig greint frá því á fundinum að til standi að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, leggi fram lög um heildarendurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Því frumvarpi hefur enn ekki verið dreift til þingmanna.
Árni Páll segir að forsvarsmenn stjórnarflokkanna hafi haft þann fyrirvara á þingmálalistanum sem lagður var fram að einhver mál gætu bæst við. Hann segir ekkert mál á þingmálaskránni sem sé þess eðlis að það kalli á grundvallarátök milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir stóru fréttirnar af fundinum þær að kosið verði í október.
„Þeir eru nú búnir að gefa það út að þeir vilja kjósa í haust,” segir hann. Varðandi þann mikla fjölda mála á listanum yfir þingmál, segir hann ljóst að heilmikil vinna sé framundan í þinginu.
„Mér finnst hæpið að þinginu verði slitið í maí eins og dagskráin gerir ráð fyrir núna,” segir hann. „Og það er óljóst hvernig þetta verður svo í haust, hvort þing komi saman aftur þá fyrir kosningar. Þetta snýst fyrst og fremst um reglur um framlagningu fjárlagafrumvarps sem væntanlega verður að sinna.”
Óttarr undirstrikar að stjórnarandstaðan standi við tillögu sína um kosningar strax þó að hún hafi verið felld í þinginu. „Það er mjög mikilvægt að slá á þennan efa. Það eru allir meðvitaðir um þá krísu sem íslensk pólitík er í og mikilvægt að standa saman að mikilvægum málum.”