Félag í eigu fjölskyldu Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, átti félag skráð á Bresku Jómfrúareyjunum frá árinu 1999 til ársins 2005. Félagið, sem heitir Lasca Finance Limited, er að finna í gögnum frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Árið 2005 seldi fjölskyldufyrirtækið Moussaieff Jewellers Ltd. tíu prósenta hlut sinn í Lasca Finance til hinna tveggja eigenda þess. Þeir voru S. Moussaieff og „Mrs." Moussaieff. Þetta kemur fram í gögnum sem Kjarninn og Reykjavik Grapevine hafa undir höndum.
Ólafur Ragnar
fór í viðtal til fréttakonunar Christiane Amanpour, á bandarísku
sjónvarpsstöðinni CNN, síðastliðinn föstudag. Amanpour spurði Ólaf Ragnar um
Panamaskjölin og hreint út hvort hann eða fjölskylda hans væri tengd
aflandsfélögum:
„Átt þú einhverja aflandsreikninga? Á eiginkona þín einhverja
aflandsreikninga? Á eitthvað eftir að koma í ljós varðandi þig og fjölskyldu
þína?” spurði hún. Ólafur var afdráttarlaus í svörum: „Nei, nei, nei, nei,
nei. Það verður ekki þannig.”
Kjarninn beindi fyrirspurn til embættis forseta Íslands vegna Lasca Finance. Í svari þess segir: „Hvorki forseti né Dorrit vita neitt um þetta félag né hafa heyrt af því áður. Faðir Dorritar er látinn og móðir hennar, sem er 86 ára, man ekki eftir neinu slíku félagi."
Með skráð heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum
Fyrirtæki Moussaieff fjölskyldunnar heitir Moussaieff Jewellers Limited. Í ársreikningum félagsins frá árunum 1999 til 2005 kemur fram að fyrirtæki Moussaieff-fjölskyldunnar ætti hlut í félagi sem heitir Lasca Finance Limited, sem sett var á fót árið 1999. Eigendur fyrirtækisins voru S. Moussaieff og A. Moussaieff, sem áttu ráðandi hlut og Moussaieff Jewellers Limited sem átti tíu prósent.
Lasca Finance er með heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum. Í skjölum sem Kjarninn hefur undir höndum kemur fram að félagið var á þeim tíma í umsjón panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca og greiddi árgjald fyrir þá þjónustu. Í ársreikningum Moussaieff Jewellers Limited, sem skilað var til fyrirtækjaskráar í Bretlandi, kemur fram að Lasca Finance fái greitt umtalsverðar fjárhæðir í vexti á hverju ári (e. interest receivable), sem gefur til kynna að Lasca hafi lánað einhverjum fé. Samanlögð fjárhæð þeirra vaxta sem Lasca átti að fá greitt frá árinu 2000 til 2005 er tæplega sjö milljónir punda. Á gengi dagsins í dag er sú upphæð jafnvirði 1.262 milljónum íslenskra króna.
Á árinu 2005 seldi Moussaieff Jewellers Ltd. tíu prósent hlut sinn í Lasca Finance. Samkvæmt ársreikningi Moussaieff Jewellers Limited voru kaupendurnir S. Moussaieff og „Mrs." Moussaieff. Kaupverðið var 375 þúsund pund, eða 68 milljónir íslenskra króna. Eftir þann tíma er félagið ekki lengur skráð í bókum Moussaieff Jewellers Limited.
Dorrit færði lögheimili sitt
Schlomo Moussaieff lést 1. júlí 2015, þá níræður, en eiginkona hans Alisa er enn á lífi. Hún er 86 ára gömul og er skráður eigandi Moussaieff Jewellers Limited. Hjónin eiga þrjár dætur, Dorrit, Tamöru og Sharon.
Dorrit og Ólafur Ragnar giftu sig þann 14. maí 2003. Ólafur hafði þá verið forseti Íslands í sjö ár. Á heimasíðu forsetaembættisins segir að Dorrit hafi um „árabil fengist við skartgripaviðskipti með áherslu á sjaldgæfa steina og einnig stundað ýmis önnur viðskipti."
Tæpum níu árum síðar, þann 27. desember 2012, flutti Dorrit lögheimili sitt frá Bessastöðum til Bretlands. Sá gjörningur vakti mikla athygli og umræður á Íslandi þar sem íslensk lög gera ráð fyrir því að hjón eigi að hafa lögheimili í sama landi. Eftir að Fréttablaðið greindi frá þessu í júní 2013 sendi Dorrit frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagði meðal annars:
„Þegar horfur voru á að eiginmaður minn yrði ekki lengur forseti gerði ég ráðstafanir til að geta sinnt meira fyrri störfum mínum í London, einkum í ljósi þess að foreldrar mínir, sem stjórnað hafa fjölskyldufyrirtækinu, eru nú háaldraðir.“ Færslan á lögheimili hafi verið gerð á grundvelli skattalaga og í samræmi við ráðgjöf sérfræðinga.
Í nýjársávarpi sínu 2012 tilkynnti Ólafur Ragnar að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram aftur til embættis forseta Íslands. Honum snérist síðar hugur og sigraði í kosningum það sumar, nokkrum mánuðum áður að Dorrit færði lögheimili sitt.
Ólafur Ragnar tilkynnti í síðasta nýjársávarpi að hann ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram til forseta. Hann hefur gegnt embættinu frá árinu 1996. Í síðustu viku boðaði hann skyndilega til blaðamannafundar og greindi frá því að honum hafi aftur snúist hugur og ætli að sækjast eftir því að sitja sem forseti í fjögur ár til viðbótar.